Handbolti

Bjarki bætti tíu mörkum í sarpinn í jafntefli við Löwen

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarki Már Elísson er hornamaður íslenska landsliðsins.
Bjarki Már Elísson er hornamaður íslenska landsliðsins. vísir/epa

Bjarki Már Elísson bætti í forskot sitt sem markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar í handbolta þegar Lemgo náði í stig á útivelli gegn Rhein-Neckar Löwen í kvöld, 29-29.

Ýmir Örn Gíslason og Alexander Petersson voru báðir í liði Löwen og skoraði Alexander tvö en Ýmir eitt. Bjarki skoraði hins vegar tíu mörk úr ellefu skotum fyrir gestina sem jöfnuðu metin þegar um 20 sekúndur voru til leiksloka. Lemgo er því með 21 stig í 10. sæti en Löwen, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, með 30 stig í 6. sæti.

Bjarki hefur alls skorað 189 mörk á leiktíðinni og er með ellefu marka forskot á næsta mann, Hans Óttar Lindberg, yfir markahæstu menn deildarinnar.

Oddur Gretarsson skoraði tvö marka Balingen sem mátti sín lítils gegn toppliði Kiel, í 32-20 tapi á heimavelli. Kiel er nú með fjögurra stiga forskot á Flensburg á toppi deildarinnar en Flensburg á leik til góða. Balingen er þremur stigum frá fallsæti.

Elvar Ásgeirsson komst ekki á blað fyrir Stuttgart en fagnaði sigri, 30-24, þegar liðið mætti Erlangen. Stuttgart er með 15 stig líkt og Balingen, þremur stigum frá fallsæti.

Nordhorn, undir stjórn Geirs Sveinssonar, tapaði 30-20 fyrir Göppingen á heimavelli og er enn með aðeins tvö stig á botni deildarinnar.

Magdeburg, lið Gísla Þorgeirs Kristjánssonar, vann 28-26 sigur á Leipzig. Gísli er frá keppni vegna meiðsla. Magdeburg er í 5. sæti með 33 stig.

Úrslit kvöldsins:
RN Löwen - Lemgo 29-29
Magdeburg - Leipzig 28-26
Minden - Füchse Berlín 30-25
Balingen - Kiel 20-32
Nordhorn - Göppingen 20-30
Stuttgart - Erlangen 30-24Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.