Skoðun

Verjum Elliða­ár­dalinn - skrifum undir

Marta Guðjónsdóttir skrifar

Nú ríður á að Reykvíkingar, jafnt í efri byggðum sem neðri, fylki sér saman, skrifi undir áskorun Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins, og leggi þar með sitt á vogarskálarnar,  gegn því að meirihluti  borgarstjórnar leyfi dularfullum milljarðamæringum að breyta suðurmörkum Elliðaárdalsins í Disneyland fyrir túrista.

Í Elliðaárdalnum eigum við Reykvíkingar okkar náttúruperlur, minjar og sögusöfn sem vitna um okkar eigin sögu og sérkenni. Risavöxnum alþjóðlegum túristatraksjónum með yfirbyggðum suðrænum pálmatrjám, börum og kaffistofum, yrði þar ofaukið með sína bílaumferð, bílastæði og ljósadýrð.

Borgarstjórnarmeirihlutinn breytti skipulagsskilmálum syðst í Elliðaárdalnum í nóvember síðastliðnum til að heimila þar túristabyggingu að grunn­fleti 4.500 fer­metr­ar auk þess sem þar er gert ráð fyrir tveimur öðrum stórbyggingum og risa bílastæði. Á sama borgarstjórnarfundi hafnaði borgarstjórnarmeirihlutinn þeirri tillögu okkar í minnihlutanum um að Reykvíkingar fengju að kjósa um þessar framkvæmdir. Og þetta er því miður einungis byrjunin á aðförinni að „Græna treflinum“ sem nær frá Hljómskálagarðinum og upp í Heiðmörk. Í bígerð eru fleiri slíkar aðfarir  með tilheyrandi stórbyggingjum, m.a. í Víðidalnum.

Það er ekki að ástæðulausu að Umhverfisstofun ríkisins lagðist gegn þessum áformum, sem og formaður og stjórn Landverndar. Allir raunverulegir náttúruvermdarsinnar vilja vernda Elliðaárdalinn fyrir gróðabralli af þessum toga. 

Á skal að ósi stemma. Við skulum því skrifa undir áskorun Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins og gera þannig borgaryfirvöldum það ljóst í eitt skipti fyrir öll, að við höfnum þessari aðför að Elliðaárdalnum og stöndum vörð um „græna trefla“ Reykjavíkur sem í raun eru lungu borgarinnar.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×