Fótbolti

Segir leikmenn úr rúmenska hópnum stunda of mikið kynlíf

Sindri Sverrisson skrifar
Florinel Coman er ein helsta stjarna FCSB og var lykilmaður í liði Rúmena sem enduðu í 4. sæti á EM U21-liða í fyrra.
Florinel Coman er ein helsta stjarna FCSB og var lykilmaður í liði Rúmena sem enduðu í 4. sæti á EM U21-liða í fyrra. vísir/getty

Nokkrir leikmenn rúmenska landsliðsins sem væntanlegt er til Íslands í næsta mánuði eyða of miklum tíma í kynlíf með kærustunum sínum og það bitnar á þeim á fótboltavellinum.

Þetta staðhæfir að minnsta kosti skrautlegur eigandi rúmenska knattspyrnufélagsins FCSB, Gigi Becali, sem í sjónvarpsviðtali í morgun reyndi að útskýra slæmt gengi liðsins undanfarnar vikur. FCSB er komið niður í 4. sæti efstu deildar Rúmeníu og er átta stigum á eftir toppliði Cluj, eftir að hafa aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum.

„Þeir [leikmennirnir] einbeita sér ekki. Þeir reyna það en þeir geta það ekki. Þeir njóta of oft ásta með kærustum sínum, eru bara með sýndarmennsku á æfingum og hugsa aðallega um að sofa því þeir eru svo þreyttir,“ sagði Becali.

Á meðal leikmanna FCSB er Florinel Coman, eitt ungstirna Rúmena sem komust í undanúrslit á EM U21-liða síðasta sumar. Þessi markahæsti leikmaður FCSB í vetur er einn að minnsta kosti þriggja leikmanna liðsins sem tóku þátt í undankeppni EM A-landsliða í fyrra, og líklegur til að fá sæti í landsliðshópnum sem kemur til Íslands í umspilsleikinn á Laugardalsvelli 26. mars. Það er að segja ef hann hefur orku til þess eftir allt kynlífið sem hann stundar.





Becali var spurður að því hvort að sálfræðingur gæti hjálpað leikmönnum að spila betur og svaraði þá:

„Þetta snýst að mínu mati um undirbúninginn. Ég tel ekki þörf á því að kalla til sálfræðing. Fyrir mér þá er Kristur og bænin eina sálfræðin sem til þarf. Maður kallar bara til sálfræðing ef maður er veikur. Öll lið eru með sálfræðinga en fyrir mér liggur þetta allt hjá Kristi og í hinni heilögu bók. Við höfum enga þörf fyrir hugarþjálfara.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×