Körfubolti

Tárin runnu hjá Michael Jordan: Hluti af mér dó þegar Kobe dó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tárin runnu niður kinnar Jordan í ræðunni.
Tárin runnu niður kinnar Jordan í ræðunni. Getty/Kevork Djansezian

Michael Jordan hélt mjög tilfinningaríka ræðu á minningarathöfninni um Kobe Bryant sem fór fram í Staples Center í gær.

Körfuboltamaðurinn Kobe Bryant ætlaði sér alltaf að vera jafngóður ef ekki betri en Michael Jordan. Kobe náði því kannski alveg en komst upp á stall með þeim allra besta og átti magnaðan feril í NBA-deildinni.

Kobe Bryant fórst í þyrluslysi ásamt Gigi dóttur sinni og sjö öðrum í lok janúar. Í gær, 24.2, var haldin minningarathöfn um Bryant feðginin en þau spiluðu með númer 24 og 2 á bakinu.

Michael Jordan fór upp í pontu og hélt eftirminnilega ræðu. Hann réð ekki við tárin þegar hann minntist litla bróður síns eins og hann kallaði Kobe.


Vanessa Bryant, kona Kobe Bryant, hélt ræðu á undan Michael Jordan og Jordan hjálpaði henni síðan niður af sviðinu áður en hann hélt sína ræðu.

„Þegar Kobe dó þá dó líka hluti af mér. Þegar ég horfi yfir salinn og yfir allan heiminn þá held ég að hluti af ykkur öllum hafi líka dáið,“ sagði Michael Jordan meðal annars í ræðunni.

„Hann vildi verða eins góður körfuboltamaður og hann gat orðið. Um leið og ég kynntist honum þá vildi ég verða besti stóri bróðir sem ég gat orðið,“ sagði Jordan.

„Ég lofa ykkur því að hér eftir mun ég varðveita minningarnar vitandi það að ég átti lítinn bróður. Ég reyndi að hjálpa eins og ég gat,“ sagði Jordan.


Michael Jordan réð ekki við tárin þegar hann hélt ræðuna þó svo að hann hefði lofað eiginkonu sinni að gráta ekki.

„Ég sagi við konuna mína að ég ætlaði ekki að gráta. Ég hafði ekki áhuga á að sjá myndir af mér grátandi næstu þrjú eða fjögur árin,“ sagði Jordan en það varð raunin þegar hann táraðist í ræðu sinni þegar kappinn var tekinn inn í Frægðarhöll körfuboltans. Menn voru þá fljótir að fara leika sér af setja grátandi Jordan inn í alls konar aðstæður.

Í salnum í gær voru goðsagnir eins og Magic Johnson, Shaquille O'Neal, Jerry West og Kareem Abdul-Jabbar en líka núverandi stjörnuleikmenn eins og þeir Stephen Curry, James Harden og Russell Westbrook.


„Allir eru alltaf að bera okkur tvo saman en ég vildi bara tala um Kobe. Hvíldu í friði, litli bróðir,“ sagði Jordan.

Það má sjá alla ræðu Michael Jordan hér fyrir neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.