Handbolti

Hörður greiddi Þórsurum rúmlega 230 þúsund krónur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr handboltaleik hjá Herði.
Úr handboltaleik hjá Herði. mynd/facebook-síða harðar

Talsverður hasar hefur verið í kringum uppgjör á bikarleik Harðar frá Ísafirði og Þórs frá Akureyri. Ísfirðingum upprunalega blöskraði reikningurinn frá Þórsurum.

Í yfirlýsingu Þórsara í dag kemur fram að reikningurinn hafi verið 692 þúsund krónur en Þór flaug í leikinn norður. Hörður hefur greitt 237 þúsund krónur til Þórsara og málinu lokið.

Yfirlýsing Þórsara:

Vegna ágreinings handknattleiksdeilda Þórs á Akureyri og Harðar á Ísafirði, um uppgjör í kjölfar bikarleiks í september 2019, vill Íþróttafélagið Þór taka fram:

Heildarkostnaður við leikinn var 692.906 krónur, vegna flugs Þórsara á milli Akureyrar og Ísafjarðar, aksturs til og frá flugvelli á Ísafirði og dómara. Uppgjöri er nú lokið í fullri sátt og Þór hefur fengið greiddar 237.000 krónur, þann hluta sem Herði bar að greiða skv. reglum Handknattleikssambands Íslands (HSÍ), þegar dreginn hafði verið frá kostnaður sem Hörður greiddi, m.a. vegna dómara.  Þess má geta að upphæðin hefði getað verið lægri ef selt hefði verið inn á leikinn.

HSÍ hefur staðfest í tvígang að farið var í einu og öllu eftir reglum sambandsins. Nefna má sem dæmi að eins var staðið að málum þegar Selfyssingar léku við Þór á Akureyri í bikarkeppninni í haust. Selfyssingar óku til Reykjavíkur og flugu þaðan norður en óku að vísu til baka. Þór greiddi helming alls kostnaðar við leikinn.

Ástæða þess að forráðamenn Þórs kusu að liðið flygi til Ísafjarðar var ekki síst hve þétt leikið var. Þór mætti ungmennaliði Hauka á Akureyri föstudagskvöldið 27. september, bikarleikurinn margumræddi fór fram á Ísafirði síðdegis mánudaginn 30. september og föstudaginn 4. október lék Þór gegn Gróttu á Seltjarnarnesi.

Forsvarsmenn Harðar og HSÍ vissu með góðum fyrirvara að Þórsarar færu fljúgandi til Ísafjarðar og skv. útreikningum HSÍ var kostnaðurinn við flugið ótrúlega litlu meiri en hefðu Þórsarar ekið á milli Akureyrar og Ísafjarðar og gist þar eina nótt. Var þó ekki gert ráð fyrir vinnutapi leikmanna Þórs.

Ánægjulegt er að sættir náðust og málið er úr sögunni.

Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Þórs á Akureyri


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.