Enski boltinn

Man. United sagt ætla kaupa tvo leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni fyrir 160 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Maddison og Jack Grealish gætu orðið liðsfélagar hjá Manchester United á næsta tímabili.
James Maddison og Jack Grealish gætu orðið liðsfélagar hjá Manchester United á næsta tímabili. Getty/Chris Brunskill

Manchester United er áberandi í slúðurfréttum dagsins í Englandi en öll blöðin búast við því að félagið verði stórtækt á leikmannamarkaðnum í sumar.

Gengi Manchester United á tímabilinu hefur valdið miklum vonbrigðum og það stefnir í það að félagið missi aftur af sæti í Meistaradeildinni. United eyddi talsverðum peningi í nýja leikmenn síðasta sumar en það var ekki nóg.

Nú hefur Ed Woodward boðað viðburðaríkt sumar hvað varðar leikmannakaup og ensku blöðin voru líka fljót að grafa upp fréttir frá Old Trafford í framhaldinu.

Stærsta fréttin snýst um tvo unga enska leikmenn sem hafa verið að gera góða hluti með liðum sínum í ensku úrvalsdeildinni að undanförnu.



Í frétt hjá Sun er talað um að Manchester United ætli að eyða 160 milljónum punda í þá Jack Grealish hjá Aston Villa og James Maddison hjá Leicester City. James Maddison er 23 ára en Jack Grealish er 24 ára gamall.

Manchester United keypti Bruno Fernandes fyrir 46,6 milljónir í janúar en félagið er sagt ætla að selja Paul Pogba í sumar og þarf örugglega að kaupa nýja menn til að styrkja miðjuna. Þar eru þeir Grealish og Maddison ungir og spennandi leikmenn sem hafa þegar sannað sig í ensku úrvalsdeildinni.

James Maddison gæti kostað Manchester United 90 milljónir punda en leikmaðurinn hefur ekki enn framlengt samning sinn við Leicester City. Ef United bankar á dyrnar og býður Maddison mun stærri samning er ekki líklegt að það breytist á næstunni.

Grealish hefur verið hjá Aston Villa síðan hann var sex ára gamall. Hann gæti samt þurft að yfirgefa sitt ástsæla félag ætli hann að vinna sér sæti í enska landsliðinu og fá tækifæri til að spila í Evrópu. Aston Villa vill samt örugglega fá 70 milljónir punda fyrir hann.

Daily Mirror er líka á því að Manchester United ætli sér að hafa betur í baráttunni við Chelsea um enska landsliðsmanninn Jadon Sancho hjá Borussia Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×