Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - KA/Þór 24-23 | Ótrúlegur endurkomusigur Stjörnunnar í Ásgarði

Sæbjörn Steinke skrifar
Sólveig Lára skoraði sigurmark Stjörnunnar í kvöld.
Sólveig Lára skoraði sigurmark Stjörnunnar í kvöld. vísir/bára

KA/Þór kom í heimsókn í dag í Ásgarð og mætti þar Stjörnunni í 16. umferð Ólís-deildar kvenna. KA/Þór leiddi nánast allan leikinn í dag en Stjarnan sýndi mikla seiglu og kom til baka þegar mest var undir og Sólveig Lára Kjærnested fullkomnaði svo endurkomuna með marki úr vítakasti þegar tíminn var runninn út.

Stjarnan hafði farið brösulega af stað eftir jólafrí en sigraði Hauka örugglega í síðustu umferð. KA/Þór steinlá fyrir norðan í síðustu umferð gegn toppliði Fram en Norðankonur komu vel gíraðar til leiks og komust fljótlega yfir og náðu í tvígang fimm marka forskoti í fyrri hálfleik. Martha Hermannsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir léku við hvurn sinn fingur og réði Stjarnan illa við þær tvær.

Forystan var þrjú mörk í hálfleik en gestirnir geta nagað sig í handarbökin að fara ekki með stærra forskot til búningsherbergja eftir að hafa yfirspilað Stjörnuna lengst af í fyrri hálfleik. Munurinn var lengst af um tvö til fjögur mörk í seinni hálfleiknum, KA/Þór í vil, en Stjarnan náði að jafna leikinn á 56. mínútu, 22-22. Stjarnan komst svo yfir en KA/Þór jafnaði í kjölfarið.

Sebastian tók leikhlé og fékk Stjarnan lokasóknina. Elísabet Gunnarsdóttir fékk boltann á línunni og brotið var á henni og dæmt vítakast. Örfáar sekúndur voru þá eftir og tíminn leið út áður en Sólveig Lára fór á vítalínuna. Matea Lonac í marki KA/Þór hafði hendur á boltanum en inn fór hann, heppnisstimpill en líklega ekki minna sætt fyrir vikið.

Af hverju vann Stjarnan?

KA/Þór hafði tögl og hagldir á þessum leik lengstum en þegar leið á leikinn varð leikstjórninn á leik Stjörnunnar betri og varnarleikurinn þéttari. Undir lokin var þetta svo bara spurning um heppni og í dag var það Stjarnan sem var heppin þegar mest taldi.

Sebastian sagði í viðtali eftir leik að það væri mikill andlegur styrkur í hans leikmannahópi og má segja að sá styrkur hafi komið liðinu á þann stað að eiga möguleika á sigri undir lokin. Matea var grátlega nálægt því að verja vítakast Sólveigar en inn fór boltinn og tvö stig í Garðabæinn.

Hverjar stóðu upp úr?

Ásdís Guðmundsdóttir, línumaður KA/Þór, var besti maður vallarins í dag. Ásdís var gífurlega öflug á línunni og greip alla bolta sem möguleiki var á að grípa, Ásdís skoraði alls átta mörk úr níu tilraunum. Sólveig Lára Kjærnested var atkvæðamest hjá Stjörnunni. Sólveig skoraði níu mörk úr þrettán tilraunum, þar af úr fjórum vítum.

Martha Hermannsdóttir stýrði leik gestanna vel lengstum og skorað níu mörk úr þrettán tilraunum, hún skoraði líkt og Sólveig úr öllum sínum vítum, fimm talsins. Karen Tinna Demian var næstmarkahæst hjá Stjörnunni en hún skoraði sjö mörk úr tólf tilraunum. Matea Lonac var góð í marki KA/Þór og þá varði Klaudia Powaga góða bolta hjá Stjörnunni. Tölfræði Klaudiu blekkir aðeins þar sem margar af hennar skráðu vörslum komu þegar dæmt var vítakast eða aukakast í kjölfarið.

Hvað gekk illa?

Akureyringar skoruðu einungis þrjú mörk á síðasta korterinu gegn sjö frá Garðbæingum. KA/Þór leiddi með fjórum mörkum, 17-21 þegar rúmar þrettán mínútur lifðu leiks en Stjarnan náði að loka á sóknaraðgerðir Norðankvenna á lokakaflanum og náði að koma inn mörkum hinu megin.

Þrátt fyrir frábæran leik Ásdísar þá lét hún reka sig að velli á 55. mínútu eftir brot á Þóreyju Önnu þegar Þórey fór inn úr horninu. Vítakast og tvær mínútur var ekki það sem KA/Þór þurfti þegar forskotið var komið niður í eitt mark.

Hvað gerist næst?

Bæði þessi lið eiga enn möguleika á úrslitakeppnissæti. Stjarnan er með nítján stig í 3. sæti og KA/Þór er í 6. sæti með tólf. KA/Þór er fjórum stigum frá HK sem er í síðasta úrslitakeppnissætinu. Stjarnan er með sjö stiga forskot á liðið í fimmta sæti. Í næstu umferð fær KA/Þór lið HK í heimsókn og Stjarnan fer til Vestmannaeyja. Báðir þessir leikir fara fram næsta laugardag.

Gunnar: Ég er drullusvekktur

„Ég er drullusvekktur, við erum yfir í örugglega 58 mínútur af leiknum en svona fór þetta. Við stálum einum fyrir norðan. Kannski er þetta bara jafnt, ég veit það ekki," sagði Gunnar Líndal Sigurðsson, þjálfari KA/Þór, eftir tap gegn Stjörnunni í dag.

„Ég er á því að við hefðum getað leitt með fleiri en þremur mörkum í hálfleik. Mér fannst við spila virkilega vel lungan úr leiknum. Fáum fín færi en það var tímaspursmál hvenær Stjarnan kæmi með áhlaup, það var vitað mál."

Gunnar var spurður út í framhaldið í deildinni. Efstu fjögur lið deildarinnar fara í úrslitakeppni: „Það hefði verið sterkt í dag að taka tvö stigin upp á úrslitakeppnina að gera. Við förum í alla leiki sem eftir eru til að vinna þá. Svo verðum við að telja stigin í lokin," sagði Gunnar að lokum.

Basti: Þetta er pínu súrsætt

„Þetta er hrikalega sætt í ljósi þess að við áttum ekki skilið að tapa á Akureyri, það mark hefur verið skoðað fram og til baka," sagði Sebastian Alexanderson, þjálfari Stjörnunnar eftir 24-23 endurkomusigur gegn KA/Þór í Olís-deild kvenna í dag.

„Ég get ekki sagt að við höfum átt skilið að vinna þennan leik. Ég er ofboðslega ánægður samt með sigurinn að sjálfsögðu. Ánægður með spilamennskuna í seinni hálfleik en á móti vægast sagt ósáttur með byrjunina í dag og fjöldan af mistökum. Ósáttur að við komum svona til leiks eftir góðan sigur í síðustu umferð."

Basti sagði í hálfleik að hann hafi hugsað í hálfleik að hans lið myndi fá þrjátíu mörk á sig en sagði liðið hafa fundið lausnir varnarlega. „Þetta er pínu súrsætt, ég er mjög ósáttur með fyrri hálfleikinn."

Munurinn var þrjú mörk í hálfleik. KA/Þór leiddi 14-11, munurinn hefði getað verið meiri á liðunum í hálfleik miðað við hvernig leikurinn var að þróast. „Við ræddum það í hálfleik að við værum þrátt fyrir allt í leik og áttum að byrja með boltann í seinni hálfleik. Eftir erfiða byrjun á seinni þá náum við okkur í gang. Ég hef sagt það áður - það er rosalega mikill andlegur styrkur í þessum hóp og sá styrkur kom í ljós í seinni hálfleik."

„Ég get sett mig í spor Norðanstelpna, þetta er örugglega jafnsúrt og þegar við fórum heim eftir þetta sigurmark fyrir norðan. Nú einbeitum við okkur að því að tryggja okkur sæti í úrslitakeppninni."

Basti var að lokum spurður út í leikmannahópinn, lykilmenn léku ekki með í dag. Hvernig er staðan á hópnum?

„Það er ljóst núna að það munu ekki allir leikmenn koma til baka og við munum ekki ná að spila á okkar besta liði. Við verðum að nota tímann núna fram að úrslitakeppni til að finna lausnir hvernig við ætlum að keppa við Val og Fram í úrslitakeppninni."

„Ég get ekki svarað því hvort Hanna Guðrún og Rakel spili það sem eftir er tímabils. Það eru jafnmiklar líkur á að þær geri það og að þær geri það ekki. Elena rifbeinsbrotnaði aftur og þá eru Dagný Huld og Brynhildur einnig frá. Við erum með nóg af mannskap og við verðum að hugsa í lausnum."

„Sem þjálfari hefur maður tvær leiðir. Maður getur vælt eða maður getur reynt að gera eitthvað úr því sem maður hefur," sagði Basti að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.