Handbolti

Einar Jónsson vann tvöfalt í Færeyjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Einar er hann stjórnaði Gróttu.
Einar er hann stjórnaði Gróttu. Vísir/Daníel

H71, undir stjórn Einars Jónssonar, varð í dag færeyskur bikarmeistari karla og kvenna í handbolta er bikarhelgin fór fram í Höllini á Hálsi í Þórshöfn.

Einar ætti að vera flestum unnendum íslensks handbolta kunnur en hann hefur meðal annars þjálfað Fram, Stjörnuna og Gróttu hér á landi. Hann færði sig til Færeyja eftir að Grótta féll úr Olís deild karla síðastliðið vor. Þar stýrir hann bæði karla- og kvennaliði H71 en bæði lið léku til úrslita í dag.

Kvennaliðið mætti VÍF þar sem H71 vann í rafmögnuðum úrslitaleik. Lokatölur 24-23 eftir að VÍF hafði verið yfir 23-22 þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Var þetta fyrsti bikartitill kvennaliðsins í sögu félagsins.

Karlaliðið mætti síðan Kyndil. Þar var spennan ekki jafn mikil og vann H71 á endanum fjögurra marka sigur, 23-19. Þeirra fjórði bikartitill í sögunni.

Þá er vert að nefna að báðum liðum gengur einkar vel í deildinni. H71 situr á toppi efstu deildar karla með 22 stig, sex stigum á undan næsta liði. Kvennalið H71 er svo í 3. sætinu, aðeins tveimur stigum á eftir efsta liði deildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.