Enski boltinn

Hetjan úr München flugslysi Manchester United liðsins er látin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Gregg en þessi mynd var tekin á honum sumarið 2018.
Harry Gregg en þessi mynd var tekin á honum sumarið 2018. Getty/Charles McQuillan

Harry Gregg, fyrrum markvörður Manchester United og norður írska landsliðsins er látinn 87 ára að aldri. Hann var einn af goðsögnum félagsins, bæði fyrir spilamennsku sína en ekki síst fyrir hetjudáðir sínar á einni erfiðustu stundunni í sögu Manchester United.

Harry Gregg sýndi mikla hetjudáð í München flugslysinu árið 1958 þegar hann bjargaði liðsfélögum sínum og öðrum farþegum út úr flugvélinni en 23 manns létust í slysinu.



Meðal þeirra sem hann bjargaði voru Bobby Charlton, Jackie Blanchflower, Dennis Viollet og knattspyrnustjórinn Sir Matt Busby. Gregg bjargaði líka ófrískri konu, Vera Lukić, og tveggja ára dóttur hennar.

Sir Matt Busby og Bobby Charlton áttu síðan eftir að verða aðalmennirnir í uppkomu Manchester United og hápunkturinn var þegar liðið vann Evrópukeppni meistaraliða á Wembley, tíu árum eftir flugslysið.



Harry Gregg hélt áfram að spila með Manchester United eftir flugslysið en var farinn frá félaginu þegar það fór að vinna aftur titla.

Þegar Manchester United keypti Harry Gregg frá Doncaster Rovers árið 1957 var hann dýrasti markvörður heims og hann var síðan kosinn besti markvörðurinn á HM 1958. Gregg lék alls 25 landsleiki fyrir Norður-Írland á árunum 1954 til 1963.

Harry Gregg lést á sjúkrahúsi umkringdur fjölskyldu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×