Handbolti

Viggó hafði betur gegn Arnóri Þór og Ragnari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viggó Kristjánsson skoraði þrjú mörk í dag.
Viggó Kristjánsson skoraði þrjú mörk í dag. Vísir/Getty

HSG Wetzlar, lið Viggó Kristjánssonar, hafði betur gegn Bergischer HC í þýsku úrvalsdeildinni í dag en þeir Arnór Þór Gunnarsson og Ragnar Jóhannsson leika með síðarnefnda liðinu. Lokatölur 27-24 Wetzlar í vil.

Viggó skoraði þrjú mörk í leiknum og má í raun segja að mörk hans hafi tryggt Wetzlar stigin tvö þar sem liðið hefði aðeins skorað 24 mörk án þriggja marka hans. Markahæstur í liði Wetzlar var Anton Lindskog með sex mörk.

Arnór Þór skoraði fimm mörk fyrir Bergischer en það dugði ekki til að þessu sinni. Ragnar komst ekki á blað.

Wetzlar voru með yfirhöndina nær allan leikinn og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13. Þeim tókst þó aldrei að stinga gestina af en unnu á endanum nokkuð öruggan þriggja marka sigur. 

Lokatölur eins og segir að ofan, 27-24. Wetzlar því komið upp í 8. sæti deildarinnar með 22 stig. Bergischer er hins vegar í því 10. með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×