Handbolti

Ís­land í efsta styrk­leika­flokki fyrir undan­keppni EM 2022

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bjarki Már Elísson er hornamaður íslenska landsliðsins.
Bjarki Már Elísson er hornamaður íslenska landsliðsins. vísir/epa

Íslenska karlalandsliðið í handbolta er í efsta styrkleikaflokki fyrir undankeppni EM 2022 en dregið verður í riðla í apríl.

Á heimasíðu HSÍ segir að það sé mikið fagnaðarefni að Ísland sé í efsta styrkleikaflokki en Ísland hefur farið á síðustu ellefu Evrópumót.

Ísland er í 11. sæti styrkleikalista EHF en þrjár þjóðir úr á topp tíu þurfa ekki að fara í gegnum undankeppnina. Það eru nýkrýndir Evrópumeistarar Spánar, silfurlið Króata og Ungverjar, aðrir gestgjafara EM 2022.







Að vera í efsta styrkleikaflokki þýðir að Ísland getur ekki dregist á móti Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Slóveníu og Tékklandi.

Í öðrum styrkleikaflokki verða: Austurríki, Hvíta-Rússland, Portúgal, Norður-Makedónía, Serbía, Rússland, Svartfjallaland og Holland.

Í þriðja styrkleikaflokki verða: Sviss, Litháen, Rúmenía, Bosnía, Úkraína, Lettland, Pólland og Belgía.

Í fjórða styrkleikaflokki verða: Finnland, Ítalía, Tyrkland, Ísrael, Eistland, Grikkland, Kosóvó og Færeyjar.

Dregið verður í átta fjögurra liða riðla. Að vanda verður leikið heima og að heiman í hverjum riðli, samtals sex leikir á hvert lið en keppnin fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu 14. til 30. janúar 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×