Handbolti

Ýmir Örn Gíslason á leið til Rhein-Neckar Löwen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ýmir Örn Gíslason í leik með Val.
Ýmir Örn Gíslason í leik með Val. Vísir/Bára

Ýmir Örn Gíslason hefur spilað sinn síðasta leik með Val í Olís deild karla í handbolta í bili en samkvæmt heimildum íþróttadeildar þá hafa Valsmenn samþykkt að selja þennan frábæra handboltamann til þýska félagsins Rhein-Neckar Löwen. 

Það var búist við því að Ýmir Örn Gíslason færi út í atvinnumennsku eftir þetta tímabil en þýska liðið vildi fá hann strax út og Valsmenn ákváðu að leyfa stráknum að fara út. Hann missir því af restinni af tímabilinu hér heima.

Ýmir Örn Gíslason er 22 ára gamall línumaður sem stóð sig frábærlega í vörn íslenska landsliðsins á EM í janúar. Hann hefur leikið 40 A-landsleiki frá árinu 2017 og hefur þrátt fyrir ungan aldur verið meistaraflokksmaður hjá Val síðan tímabilið 2014-15.

Valur missir þarna landsliðsmanninn sinn og algjöran lykilmann í miðri vörn liðsins. Það gæti orðið þrautinni þyngra fyrir þjálfarann Snorra Stein Guðjónsson að fylla í skarð hans í miðri vörninni í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Rhein-Neckar Löwen er í sjötta sæti í þýsku deildinni en þó bara þremur stigum frá þriðja sætinu. Löwen spilar í Mannheim sem er tæplega 300 þúsund manna borg við Rínarfljót í suðvestur Þýskalandi.

Ýmir verður þriðji Íslendingurinn hjá Rhein-Neckar Löwen í dag en fyrir eru þjálfari Kristján Andrésson og örvhenta skyttan Alexander Petersson.

Fleiri Íslendingar hafa spilað með Löwen eins og þeir Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Róbert Gunnarsson og Stefán Rafn Sigurmannsson. Guðmundur Guðmundsson þjálfaði einnig liðið um tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×