Fótbolti

Guardiola segir að Messi eigi að klára ferilinn hjá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Lionel Messi þegar sá fyrrnefndi þjálfaði Barcelona liðið.
Pep Guardiola og Lionel Messi þegar sá fyrrnefndi þjálfaði Barcelona liðið. Getty/ Laurence Griffiths

Lionel Messi getur farið frítt frá Barcelona í sumar ef hann vill en gamli knattspyrnustjóri hjá Barca er í engum vafa með að Argentínumaðurinn eigi að klára ferilinn hjá Börsungum.

Pep Guardiola var spurður út í framtíðarplön Lionel Messi á blaðamannafundi í dag en þar var hann reyndar mættur til að ræða leik Manchester City og West Ham í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Framtíð Messi hefur verið til umfjöllunar í evrópskum fjölmiðlum eftir að hann gagnrýndi íþróttastjóra félagsins opinberlega. Lionel Messi er ekki vanur að fara þá leið og allir innan Barcelona höfðu því skiljanlega áhyggjur af því að hann gæti verið búinn að fá nóg og væri mögulega á förum.

Í nýjasta samningi Messi er ákvæði þar sem hann getur farið frítt frá félaginu í sumar. Það eru mörg félög í Evrópu sem tækju honum með opnum örmum.

Guardiola hefur talað um það áður að hann vilji að Lionel Messi klári ferill sinn hjá Barcelona. Hann hefur ekki breytt um skoðun.


„Það er mín ósk að hann verði áfram hjá Barcelona,“ sagði Pep Guardiola. Messi spilaði fyrir hann hjá Barca á árunum 2008 til 2012 og saman unnu þeir spænsku deildina þrisvar og Meistaradeildina tvisvar.

Guardiola vildi ekki blanda sér inn í deilur Lionel Messi og Eric Abidal. „Ég ætla ekki að tala um leikmenn í öðrum félögum,“ sagði Guardiola og ítrekaði það sem hann sagði áður:

„Ég held að hann klári ferilinn hjá Barcelona og það er líka mín ósk,“ sagði Guardiola.Lionel Messi er 32 ára gamall og hefur spilað allan sinn feril hjá Barcelona. Hann kom til félagsins fjórtán ára og fór í gegnum akademíu félagsins.

Messi hefur síðan slegið nánast öll met Barcelona en hann er nú kominn með 622 mörk fyrir aðallið Barcelona og hefur unnið spænsku deildina tíu sinnum, spænska bikarinn sex sinnum og Meistaradeildina fjórum sinnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.