Körfubolti

Topplið Vals bætir við sig bandarískum framherja með hollenskt vegabréf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Micheline Mercelita er að fara spila í fjórða landinu sem atvinnumaður.
Micheline Mercelita er að fara spila í fjórða landinu sem atvinnumaður. Mynd/Instagram/mmercelita

Íslands- og bikarmeistarar Vals í kvennakörfunni hafa bætt við sig leikmanni fyrir lokaátökin í vetur.

Valur hefur fengið keppnisleyfi fyrir Micheline Mercelita sem er bandarískur framherji sem er einnig með hollenskt ríkisfang. Þetta kemur fram á heimasíðu Körfuknattleikssambands Íslands.

Fyrir hjá Val er bandaríski leikstjórnandinn Kiana Johnson sem er með 23,8 stig, 8,6 fráköst og 8,3 stoðsendingar að meðaltali í vetur.

Valsliðið er með fjögurra stiga forskot á toppi Domino´s deildarinnar en er einnig komið í undanúrslitin í Geysisbikarnum.

Micheline Mercelita lék síðast með Visby í sænsku deildinni en síðasti leikur hennar í Svíþjóð var í byrjun janúar. Visby Ladies þakkaði henni fyrir þjónustu sína á heimasíðu félagsins eftir lokaleikinn.

Micheline Mercelita var með 5,7 stig og 7,5 fráköst að meðaltali á 25,1 í mínútum í leik í sænsku deildinni. Micheline er 183 sentimetrar á hæð og mun styrkja Valsliðið undir körfunni.

Micheline Mercelita þekkir til eins leikmanns í Domino´s deildinni því hún var liðsfélagi KR-ingsins Hildar Bjargar Kjartansdóttur í háskólaboltanum.

Micheline Mercelita lék í tvö ár með háskólaliði Hildar, Texas–Rio Grande Valley, áður en hún skipti yfir í Midwestern State University á tveimur síðustu árum sínum í bandaríska háskólaboltanum. Mercelita var með 9,5 stig og 8,3 fráköst á 22,9 mínútum í leik á lokaári sínu og tók þá ekki eitt einasta þriggja stiga skot.

Síðan Mercelita útskrifaðist hefur hún spilaði í Belgíu, á Spáni og svo síðast í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×