Körfubolti

Tindastóll síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Geysisbikarsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stólarnir eru komnir í undanúrslit Geysisbikarsins.
Stólarnir eru komnir í undanúrslit Geysisbikarsins. Vísir/Bára

Tindastóll varð í kvöld fjórða liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Geysisbikars karla með einkar öruggum 30 stiga sigri gegn Þór Akureyri, lokatölur leiksins 99-69 Stólunum í vil. Leikurinn átti upprunalega að fara fram í gær en hafði verið frestað vegna veðurs. Ljóst var fyrir leik að sigurvegari rimmu kvöldsins myndi mæta ríkjandi bikarmeisturum Stjörnunnar í undanúrslitum.

Fyrir leik var reiknað með sigri heimamanna en Tindastóll í 3. sæti Dominos deildarinnar á meðan Þórsarar berjast við falldrauginn sjálfan. Það kom svo á daginn að heimamenn reyndust mun sterkari en gestirnir frá Akureyri þó svo að þeir hafi staðið í heimamönnum í fyrsta leikhluta.

Að honum loknum munaði aðeins sex stigum á liðunum og hörkuleikur í kortunum. Tindastóll setti hins  vegar í fluggírinn í öðrum leikhluta og vann hann með 14 stiga mun, tókst gestunum aðeisn að skora 11 stig á þeim kafla leiksins. Munurinn þar með kominn upp í 20 stig þegar flautað var til hálfleiks, staðan þá 52-32.

Gestirnir hafa eflaust ætlað að koma tvíefldir til leiks í síðari hálfleik en sá vonarneistari var fljótur að brenna út. Heimamenn höfðu tögl og hagldir í þriðja leikhluta, unnu hann með 16 stiga mun og svo leikinn á endanum með 30 stiga mun, lokatölur 99-69.

Hannes Ingi Mássonvar óvænt stigahæstur í liði heimamanna en hann gerði 19 stig á þeim 16 mínútum sem hann spilaði í leiknum. Þar á eftir kom Gerel Simmons með 17 stig. Þá var Pétur Rúnar Bjarnason með níu stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar.

Hjá Þór Ak. var Pablo Hernandez Montenegro stigahæstur með 12 stig.

Þar með er ljóst að Tindastóll og Stjarnan mætast í undanúrslitum Geysisbikarsins en undanúrslitin fara fram í Laugardalshöllinni milli 12. og 16. febrúar. Í hinum undanúrslita leiknum mætast Fjölnir og Grindavík.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.