Umfjöllun og viðtöl: Þór Þorl. - KR 74-76 | Meistararnir sluppu með skrekkinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jakob Örn og félagar gerðu góða ferð í Þorlákshöfn.
Jakob Örn og félagar gerðu góða ferð í Þorlákshöfn. vísir/bára

KR vann nauman sigur á Þór í Þorlákshöfn, 74-76, í Domino's deild karla í körfubolta í kvöld.

Þetta var annar sigur Íslandsmeistara KR í röð en þeir eru í 5. sæti deildarinnar. Þór er í því áttunda.

Fyrri hálfleikur var afar sveiflukenndur. KR var miklu sterkari í 1. leikhluta og var 16 stigum yfir að honum loknum, 9-25.

Þór skoraði aðeins þrjár körfur í 1. leikhluta og skotnýting var afleit (18,8%).

Í 2. leikhluta hertu Þórsarar vörnina á meðan sókn KR-inga hrökk í baklás. Gestirnir voru kærulausir á köflum og töpuðu boltanum tólf sinnum í fyrri hálfleik.

Þrátt fyrir að enginn væri beint heitur í sókninni hjá Þór minnkaði liðið muninn og í hálfleik munaði tíu stigum á liðunum, 29-39.

Þórsarar gáfu enn meira í eftir hlé og þá sérstaklega Halldór Garðar Hermannsson. Hann fór fyrir heimamönnum sem unnu upp forskot gestanna og komust yfir, 52-51, þegar Dino Butorac setti niður þrist.

KR skoraði sex af átta síðustu stigum 3. leikhluta og leiddi að honum loknum, 54-57.

Lokaleikhlutinn var gríðarlega spennandi og liðin skiptust á forystunni.

Reynsla KR-inga skipti hins vegar sköpum á lokakaflanum og Michael Craion og Jón Arnór Stefánsson komu með gríðarlega mikilvægt framlag. KR vann á endanum tveggja stiga sigur, 74-76.

Af hverju vann KR?
KR-ingar voru miklu sterkari í 1. leikhluta, lentu í hremmingum í næstu tveimur leikhlutum en undir lokin kom reynsla þeirra og kunnátta að góðum notum.

Hverjir stóðu upp úr?
Craion hefur oft spilað betur en var frábær undir lokin þar sem hann tók tvö mikilvæg sóknarfráköst og skoraði ómetanlegar körfur. Jón Arnór setti einnig niður stór skot líkt og Brynjar Þór Björnsson sem var stigahæstur KR-inga með 19 stig.

Davíð Arnar Ágústsson átti góða innkomu í 2. leikhluta þar sem hann setti niður tvo þrista og spilaði góða vörn.

Halldór Garðar var frábær í 3. leikhluta þar sem hann skoraði nær öll sín stig í leiknum.

Hvað gekk illa?
KR-ingar voru oft á tíðum kærulausir og töpuðu boltanum 20 sinnum í leiknum.

Jerome Frink gerði lítið gagn í fyrri hálfleik þar sem hann var með jafn margar villur og stig (3). Hann náði sér betur á strik í seinni hálfleik.

Heilt yfir var leikurinn ekkert sérstaklega vel leikinn og mikið um villur og tapaða bolta. Hann var þó spennandi allt til loka.

Hvað gerist næst?
Á mánudaginn mætir KR loks Þór á Akureyri í leik sem búið er að fresta í tvígang.

Næsti leikur Þórs Þ. er gegn Haukum á útivelli eftir viku.

Friðrik Ingi: Hefðum getað tekið þennan leik
„Fyrsti leikhluti var agalegur. Það vantaði neista og sjálfstraust og við virtumst ekki geta komið tuðrunni ofan í körfuna. Þeir gengu á lagið og við vorum langt frá því að vera samkeppnishæfir,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Þórs Þ., eftir tapið fyrir KR í kvöld.

„En með jákvæðri orku breyttum við þessu og áttum fínan 2. leikhluta og seinni hálfleikurinn var mjög fínn. Ef maður miðar við frammistöðuna í 1. leikhluta getur maður ekki annað en verið ánægður með karakterinn. Og með einhverju smá hér og þar hefðum við alveg getað tekið þennan leik sem hefði ekkert verið ósanngjarnt. En Michael Craion tók tvo risafráköst sem gerðu gæfumuninn.“

Þórsarar voru ólíkir sjálfum sér í 1. leikhluta og voru 16 stigum undir að honum loknum, 9-25.

„Fyrst og fremst fannst mér vanta sjálfstraust. En Davíð Arnar [Ágústsson] kom sterkur inn, setti niður tvo þrista og gerði góða hluti í vörninni. Það kom okkur af stað og ég er mjög ánægður með hann og aðra sem komu af bekknum,“ sagði Friðrik Ingi.

„Við urðum ferskari eftir því sem leið á leikinn og hefðum getað unnið hann. Holan var orðin ansi djúp en ég er ánægður með karakterinn og eiga möguleika á að vinna. Því miður tókst það ekki.“

Ingi Þór: Dómgæslan var ekki góð
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, var afar sáttur með sigurinn á Þór í Þorlákshöfn, 74-76, í kvöld. Leikurinn var í járnum undir lokin en KR-ingar gerðu nóg til að vinna.

„Jón Arnór Stefánsson steig fáránlega vel upp fyrir okkur og tók að sér leikstjórnandahlutverkið. Við vorum búnir að vera sjálfum okkur verstir með því að tapa boltanum og þeir skoruðu mikið eftir það,“ sagði Ingi eftir leik.

„Við náðum að stoppa í vörninni undir lokin gerði það að verkum að við unnum þennan leik.“

KR tapaði boltanum 20 sinnum í leiknum og Þór skoraði 23 stig eftir mistök gestanna. Ingi kvaðst sáttur með vörn KR-inga þegar þeir náðu að stilla upp.

„Sérstaklega í byrjun leiks. Við vorum mjög ákveðnir. Svo var smá hringl á okkur út af villuvandræðum. Ég var þokkalega sáttur og sá hluti sem ég var mjög hrifinn af,“ sagði Ingi.

„Við byrjuðum leikinn af krafti og vorum einbeittir, eitthvað sem hefur vantað. Við ætlum að bæta í og gera enn betur.“

Ingi hafði eitt og annað við frammistöðu dómara leiksins að athuga.

„Því miður var hún ekki nógu góð. En það var á báða bóga og við pirruðum okkur meira á því,“ sagði Ingi.

„Ég er bara ánægðastur með að vinna og þetta voru virkilega sæt stig.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.