Körfubolti

Dwight Howard vill fá hjálp frá Kobe Bryant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard og Kobe Bryant léku saman en náðu ekki saman.
Dwight Howard og Kobe Bryant léku saman en náðu ekki saman. Getty/ Andrew D. Bernstein

Dwight Howard er kominn aftur til Los Angeles Lakers og er að gera fína hluti af bekknum. Hann ætlar líka að koma sér aðeins í sviðsljósið á Stjörnuhelginni í Chicago með því að taka aftur þátt í troðslukeppninni.

Dwight Howard vann troðslukeppni Stjörnuhelgarinnar fyrir tólf árum og þá í gervi Súperman. Dwight Howard var þá ein allra stærsta stjarna deildarinnar en eftir árin með Orlando Magic tók við ekki alveg eins góðir tímar hjá kappanum.


Dwight Howard fór meðal annars til Los Angeles Lakers árið 2012 en sambúðin við hinn einbeitta Kobe Bryant gekk illa hjá hinum léttlynda og kærulausa miðherja og Lakers liðið datt úr í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Mikið var gert úr ósætti Dwight Howard og Kobe Bryant.

Howard flakkaði mikið á næstu árum og spilaði með Houston Rockets, Atlanta Hawks, Charlotte Hornets og Washington Wizards. Nú hefur Dwight Howard aftur á móti fengið annað tækifæri hjá Lakers og nú við hlið þeirra LeBron James og Anthony Davis.

Samkvæmt heimildum Bill Oram á The Athletic þá er Dwight Howard að reyna að fá Kobe Bryant til að hjálpa sér í troðslukeppninni í Chicago. Það fylgir ekki sögunni hvað Kobe eigi að gera eða hvort að hann hafi einhvern áhuga á því.  Dwight Howard vill fá hjálp stuðningsmanna Lakers til að pressa á Kobe að verða við þessari beiðni hans.


Það er hins vegar að ljóst að ef „óvinirnir“ Dwight Howard og Kobe Bryant vinna saman þá er Dwight Howard orðinn mjög sigurstranglegur í troðslukeppninni í ár.

Dwight Howard er með 7,7 stig, 7,6 fráköst og 1,4 varið skot að meðaltali á 19,9 mínútum með Lakers liðinu í vetur auk þess að hitta úr 73 prósent skota sinna.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.