Körfubolti

Tíunda þrenna LeBron James í vetur og hann nálgast Kobe á stigalistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James hefur átt frábært tímabil með Los Angeles Lakers.
LeBron James hefur átt frábært tímabil með Los Angeles Lakers. Getty/Mike Stobe

LeBron James passaði upp á það að Los Angeles Lakers færi burt með báða sigrana í heimsókn sinni til New York. Eftir að hafa unnið New York Knicks í gær þá fylgdi liðið því eftir með sigri á Brooklyn Nets í nótt.

LeBron James var með þrennu í 128-113 sigri Los Angeles Lakers á Brooklyn Nets. James skoraði 27 stig, tók 12 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Þetta var tíunda þrennan hans á tímabilinu.


Lakers liðið skoraði alls nítján þriggja stiga körfur í leiknum sem er það mesta á tímabilinu.

Tölfræðispekúlantar voru ekki aðeins með augu á þrennunni hjá LeBron James í nótt því hann nálgast nú óðum stigafjölda Kobe Bryant. Allt lítur nú út fyrir að James geti komist upp fyrir Kobe í næsta leik sem er í Philadelphia um helgina. Kobe er einmitt fæddur í Philadelphia.

LeBron James er nú kominn með samtals 33.626 stig á NBA-ferlinum en Kobe Bryant endaði sinn feril með 33.643 stig. James vantar nú bara sautján stig til að komast upp í þriðja sæti listans á eftir þeim Kareem Abdul-Jabbar og Karl Malone.

Anthony Davis var með 16 stig og 11 fráköst og Dwight Howard kom inn í byrjunarliðið í fyrsta sinn í vetur og bætti við 14 stigum og 12 fráköstum. Kyrie Irving skoraði 20 stig í fimmta tapi Brooklyn Nets í röð en liðið hefur aðeins unnið tvo af síðustu fjórtán leikjum sínum.

Luka Doncic skoraði 27 stig og bætti við 9 stoðsendingum og 6 fráköstum þegar Dallas Mavericks vann 133-125 útisigur á Portland Trail Blazers. Doncic skoraði tuttugu af stigum sínum í fyrri hálfleiknum. Damian Lillard skoraði 47 stig fyrir Portland.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:
Portland Trail Blazers - Dallas Mavericks 125-133
Brooklyn Nets - Los Angeles Lakers 113-128
Cleveland Cavaliers - Washington Wizards 112-124

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.