Handbolti

Guðmundur: Eins og að hafa lært mjög vel fyrir próf

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Guðmundur á lokaæfingunni.
Guðmundur á lokaæfingunni.

„Staðan er nokkuð góð og mér líður vel. Mér finnst ég hafa gert það sem ég þurfti til þess að undirbúa liðið,“ sagði landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þórður Guðmundsson fyrir lokaæfingu liðsins í Malmö Arena í gær.

„Ég er tiltölulega ánægður með leikaðferðirnar sem við ætlum að beita. Það er líka eftirvænting gagnvart því að sjá hvernig andstæðingurinn bregst við því sem við erum að gera. Það eru óvissuþættir en við höfum lagt gríðarlega vinnu á okkur að undirbúa liðið. Þetta er góð tilfinning. Þetta er eins og að hafa lært mjög vel fyrir próf.“

Guðmundur þjálfaði lið Dana með frábærum árangri á sínum tíma og veit vel hversu erfitt verkefni þetta verður. Ómögulegt segja sumir en Guðmundur hefur alltaf trú.

„Þetta er líklega besta landslið heims í dag. Þeir eru líklegastir til að vinna EM. Þetta er því ekkert einfalt. Ég skal bara játa það að við þurfum að spila vel á öllum sviðum. Ef við eigum toppleik þá eigum við séns,“ segir þjálfarinn en ætlar hann að reyna að koma Dönum á óvart?

„Það er aldrei gott að vera með yfirlýsingagleði en við erum með ákveðna hluti sem ég tel henta vel gegn þeim. Öll lið hafa veikleika og styrkleika. Við teljum okkur þekkja veikleikana þeirra en það er eitt að segja þetta en annað að gera það í leiknum. Ég tel mig vera með gott leikplan og ég er sáttur innra með mér að það gæti virkað vel. Það eitt og sér dugar þó ekki.“

Klippa: Guðmundur búinn að kortleggja Danina

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×