Enski boltinn

Manchester United þorir ekki að fara með liðið í áætlaðar æfingabúðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjaer ætlar ekki að taka neina áhættu.  Hér lætur hann Andreas Pereira heyra það.
Ole Gunnar Solskjaer ætlar ekki að taka neina áhættu. Hér lætur hann Andreas Pereira heyra það. Getty/Catherine Ivill

Manchester United var á leiðinni suður í Persaflóa í æfingabúðir í vetrarfríinu í næsta mánuði en ekkert verður að því.

Nú hefur enska félagið hætt við þær áætlanir vegna ástandsins á svæðinu eftir að Bandaríkjamann réðu af dögum íranska hershöfðingjann Qasem Soleimani og Íranir svöruðu með eldflaugaárásum.

Manchester United fær sextán daga frí í ensku úrvalsdeildinni á mili 1. og 17. febrúar og liðið ætlaði að nýta þennan tíma til að fara til Katar eða Dúbaí.

United fór til Dúbaí fyrir einu ári síðan og sumir leikmenn United liðsins fóru aftur þangað í landsleikjahléinu í nóvember.

Ole Gunnar Solskjaer, knattspyrnustjóri Manchester United, ætlar að gefa leikmönnum sínum nokkra daga frí en fara svo með þær í æfingabúðir.„Já, áætlanir okkar hafa breyst. Það eru hlutir sem ég hef meiri áhyggjur af en fótbolti. Við vorum að horfa til Miðausturlanda en við munum örugglega ekki fara þangað. Við verðum samt í Evrópu,“ sagði Ole Gunnar Solskjaer í viðtali við breska ríkisútvarpið.

Manchester United er því að leita að nýjum stað fyrir æfingabúðir sínar og það er nokkuð ljóst að liðið fer ekki utan Evrópu. Líklegast er því að liðið endi í æfingabúðum í Portúgal eða á Spáni.

Manchester United spilar við Wolves 1. febrúar og næsti leikur liðsins er síðan á móti Chelsea 17. febrúar. Fljótlega eftir það bíður liðsins síðan leikur á móti belgíska félaginu Club Brugge í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.