Körfubolti

LeBron James bauð upp á þrennu í fimmta sigri Lakers í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James hefur verið með þrennu í samtals 90 leikjum á ferli sínum í NBA.
LeBron James hefur verið með þrennu í samtals 90 leikjum á ferli sínum í NBA. Getty/Andrew D. Bernstein

Liðsmenn Los Angeles Lakers vörðu samtals 20 skot í heimasigri á Detroit Pistons í NBA-deildinni. LeBron James var með þrennu í níunda skiptið á leiktíðinni.



LeBron James var með 21 stig, 14 fráköst og 11 stoðsendingar í 106-99 sigri Los Angeles Lakers og Detroit Pistons en þetta var fimmti sigur Lakers liðsins röð. Níunda þrenna LeBron James á leiktíðinni var jafnframt hans nítugasta á ferlinum.

Anthony Davis var með 24 stig, 11 fráköst og varði auk þess átta skot. Lakers liðið var samtals með 20 varin skot í þessum leik en JaVale McGee varði sex þeirra og Dwight Howard var með fimm varin skot.

Los Angeles Lakers virtist vera að sigla öruggum sigri í höfn en missti niður ellefu stiga forystu í fjórða leikhlutanum. Lakers menn náðu að redda málunum í lokin og koma um leið í veg fyrir fyrsta tapið á móti liði í vetur sem hefur tapað fleiri leikjum en það hefur unnið.

Hinn vinsæli Alex Caruso kom með 13 stig inn af bekknum en hjá Detroit Pistons var Derrick Rose atkvæðamestur með 28 stig og þá var Andre Drummond með 18 fráköst og 12 stig.



Goran Dragic var með 29 stig og 13 fráköst þegar Miami Heat vann 122-111 sigur á  Portland Trail Blazers. Damian Lillard skoraði 34 stig og gaf 12 stoðsendingar hjá Portland og Hassan Whiteside var með 21 stig og 18 fráköst á móti sínu gamla félagi.



Montrezl Harrell skoraði 34 stig og þeir Paul George og Lou Williams voru báðir með 32 stig þegar Los Angeles Clippers vann 135-132 heimasigur á New York Knicks. Marcus Morris skoraði 38 stig fyrir New York.



Litháinn Jonas Valanciunas skoraði 30 stig í 121-114 sigri Memphis Grizzlies á Phoenix Suns en Valanciunas hitti úr 12 af 16 skotum sínum í leiknum. Það dugði ekki Suns að Devin Booker skoraði 40 stig.





Úrslitin í NBA deildinni í nótt:

Los Angeles Lakers - Detroit Pistons 106-99

Phoenix Suns - Memphis Grizzlies    114-121   

Cleveland Cavaliers - Minnesota Timberwolves    103-118   

Miami Heat - Portland Trail Blazers    122-111   

Los Angeles Clippers - New York Knicks    135-132

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×