Skoðun

Lagaleg kúgun karla

Arnar Sverrisson skrifar

Árið 1869 kom út lofgjörð enska heimspekingsins, John Stuart Mill (1806-1873), Kúgun kvenna (The Subjugation of Women). Höfundur var undir sterkum áhrifum ástmeyjar sinnar og síðar eiginkonu, kvenfrelsarans Harriet Taylor (1807-1858), svo mjög, að hann átti í erfiðleikum með að greina eigin hugsanir frá hennar. Bókin var fljótlega þýdd á fjölmargar tungur. Íslensk þýðing Sigurðar Jónassonar (1863-1887) á danskri þýðingu Georg Brandes (1842-1927) var gefin út árið 1900 á kostnað „hins íslenzka kvennfélags.“

Íslenskir kvenfrelsarar hafa bókina í hávegum: „Með réttu er John Stuart Mill kallaður kvenréttindamaður og má jafnvel skipa honum á bekk með öndvegis femínistum.“  (Auður Styrkársdóttir) Kvenfrelsarar víða um veröld taka undir orð Auðar. „Kúgun kvenna er fyrsta bókin eftir þekktan hugsuð þar sem færð eru rök fyrir jafnrétti kynjanna – og þar er þetta gert af öllum þeim sannfæringarkrafti sem Mill hafði til að bera. Af þessari ástæðu er hún, eins og  vænta má, enn í miklum metum hjá femínistum hvarvetna.“ (Bryan Magee, Robert Jack þýddi.)

Um kúgun konunnar segir John Stuart Mill m.a.: „[F]rá bernsku mannkynsins hefur konan talið sig ofurselda sem ambátt manninum [karlinum] sem þótti vænt um að eiga yfir henni að segja og honum gat hún eigi veitt mótþróa sökum þess að hún var kraftaminni.“ ... „Og þar sem mönnum [körlum] einu sinni hafa boðist þessi kostakjör til þess að ná völdum yfir konum og hafa áhrif á þær, hafa þeir af nokkurs konar ósjálfráðri eigingirnishvöt notað tækifærið, sem þeim þótti einkar hentugt, til þess að halda þeim í kúgun með því að leiða þeim fyrir sjónir að það sem menn gengjust mest fyrir hjá konum væri veikleiki þeirra, sjálfsafneitun og það að þær legðu sinn eigin vilja í mannsins hendur.“

Röksemdafærslan er í sjálfu sér rýr í roðinu, en þess ber þó vitaskuld að geta, að hér um bil hálfri annarri öld síðar, hefur þekking aukist verulega. Þær konur, sem heimspekingurinn á við, eru vafalítið enskir milli- og hástéttarkvenfrelsarar. Það kemur ekki á óvart, að konur þær hafi „talið sig“ misrétti beittar af körlum. „Hin ósjálfráða eigingirnishvöt,“ fer óneitanlega milli mála. Það ber ekki á öðru, en að spekingurinn sé í mótsögn við sjálfan sig í þeim efnum, sbr. t.d.: „Hugprýði og hermannlegar dyggðir yfir höfuð hafa á öllum tímum stórum verið að þakka löngun þeirri sem karlmenn hafa til þess að vera dáðir af konum ...“ Kúgun er varla til þess fallin að laða fram aðdáun kvenna. En það er að sjálfsögðu hugsanlegt, að þær viti ekki um kúgun sína: “Hvernig ætti kona sem fædd er við hin núverandi kjör kvenna og er ánægð með þau að geta metið gildi þess að vera eigi háður öðrum en sjálfum sér.“ Tja! Stórt er spurt.

Ónefndur lagaprófessor í Dýflinni, tekur nú til máls um stöðuna í Stóra-Bretlandi í bókinni, „Lagaleg kúgun karla“ (The Legal Subjection of Men). John Stuart Mill er horfinn af sjónarsviðinu, en harmakvein hans um kúgun kvenna hljóma enn í eyrum fólks daglega. Þau bera vott mælsku, þau eru hátíðleg og brjóstumkennanleg, þrungin riddaramennsku. Ný útgáfa ofangreindrar bókar kom út 1908, endurbætt og viðaukin af enska lögfræðingnum, sagnfræðingnum og heimspekingnum, Ernest Belfort Bax (1854-1926). Hann hrósar „New Age Press“ fyrir hugrekki. Forlagið tók nefnilega þá áhættu að móðga fólk með réttar skoðanir.

Höfundur mælir tæpitungulaust. Sú hugmynd, að konur lifi lífi sínu undir oki karla, er orðin að almennri firru eða bábilju, sem litar vangaveltur um það, sem í raun gæti borið á milli kynjanna. Sjaldan í mannkynssögunni hefur jafn ljúgfróður og öfugsnúinn áróður berið á borð borinn. Og kvennahreyfingin (Women‘s Movement), talsmenn kvenréttinda og baráttumenn fyrir kosningarétti kvenna, kunna ekki að skammast sín. „Sá, sem skoðar heimssöguna í fordómalausu ljósi, neyðist til að viðurkenna, að enda þótt karlar hafi farið skelfilega að ráði sínu gagnvart kynbræðrum sínum, hafi þeir farið tiltölulega mildum höndum um konur.“

„Breytingar á stöðu kvenna frá aðstæðum í lénsveldi til aðstæðna í auðvaldssamfélagi einkennast af því, að brott er numinn sérhver vottur af auðsveipni eða vanhæfi, að því viðbættu, að tengd uppbótarsérréttindi eru aukin, og samtímis er bætt við nýjum forréttindum. Árangurinn er um síðir sá, að okkur [körlum] er íþyngt með stétt kyngöfginnar (sex-noblesse)....“

„Hin byltingarkennda kenning um jafnrétti frá 1789 [franska byltingin] er einungis látin taka til annars aðiljans [þ.e. konunnar]. Og það er gengið út frá því sem grundvallarreglu [að karl sjái] fyrir konu og að hún hafi rétt til að gera nákvæmlega það, sem henni þóknast. Samtímis er það álitið sjálfgefið, að hún sé frelsuð frá þeirri skyldu að sýna honum auðsveipni og háttprýði. Til viðbótar niðurstöðunni um drottnun í anda kvenfrelsunar er lokastaðhæfingin sú, að karlinn eigi að láta sér lynda (without redress) hvers konar óskammfeilni og svívirðu af hennar hálfu.“ 

Fullyrðingar um kúgun kvenna hafa fest í sessi sem guðspjall um ranglæti gagnvart konum, enda þótt lögfræðingar samtíðarinnar hafi bent á, að slíkar fullyrðingar eigi sér ekki stað í lögum. Lög greina hnífskarpt á milli karla og kvenna. Í einkamálarétti er kveðið á um sérstök réttindi þeirra, í refsirétti um undanþágur.

Skoðun staðreynda leiðir í ljós, að misréttis og óréttlætis í lögum gæti einvörðungu í garð karla. Konur njóta forréttinda í lögum, hvort heldur er átt við einkarétt eða refsilöggjöf. Forréttindin eru tilkomin vegna nýrra lagaákvæða samtímis því að haldið er í lagabókstafi fornra tíma, þegar konur voru ósjálfstæðar – og skiljanlegir í því ljósi. En við aðstæður nýrra tíma stuðla þessir bókstafir að harðstjórn gegn körlum.

Dæmi: Eiginkarli ber að sjá fyrir konu, hvernig sem á stendur – meira að segja, sé hún ótrú. Þetta viðbótarákvæði var samþykkt fyrir atbeina kvenfrelsara 1895; eiginkarl er ábyrgður fyrir öllum gerðum eiginkonu sinnar, jafnvel þótt hún smáni hann og yfirgefi. Karlinn þjónar sem blóraböggull; fremji eiginkona glæp í viðurvist eiginkarlsins, er hann talinn ábyrgur; kvartanir eiginkonu í garð karls síns eru ekki vefengdar, viðurlög eru fangelsi, aðskilnaður, missir forsjár barna, framfærsla þeirra og móður þeirra, sem oft og tíðum eitrar hugskot barnanna gagnvart honum (fyrri réttarregla var sú, að börn voru falin í umsjá móður sinnar fram að sjö ára aldri eða svo); eiginkarli er gert að sjá fyrir barni, getnu í framhjáhaldi konunnar; eiginkona hefur óskoruð yfirráð yfir eignum og fjármunum, sem henni hafa áskotnast með einhverjum hætti, samtímis því að eiga kröfur í eignir eiginkarlsins; það er bannað að gera kröfur í eignir eiginkvenna; skilnaður er karlinum miklu fyrirhafnarmeiri og dýrari í lagalegri framkvæmd; kona getur án viðurlaga yfirgefið fjölskyldu sína andstætt við karlinn (áður fyrri hafði karl rétt til að halda aftur af konu sinni).

Í lögum er kveðið á um algjöra friðhelgi eiginkvenna og jafnframt um sekt og skaðabótaskyldu karlsins, fremji hún glæp gegn honum sjálfum í hjónabandi, sem er einungis að nafninu til. Sektina þarf karlinn sem sé sjálfur að greiða. Sé um sérstaklega skaðvænlegan glæp að ræða, kynni eiginkonan að hljóta fangelsisdóm, en vistun hennar næmi einungis einum tuttugasta af vistunardómi karls fyrir sama glæp. Þegar hún svo losnar úr fangelsi, er karl hennar nauðbeygður til að taka við henni aftur og sjá fyrir henni.

Afbrot kvenna gátu verið alls konar: „[K]venmorðingi er venjulega látinn laus. Sé konan sakfelld er nær eingöngu um að ræða manndráp af gáleysi (manslaughter), en ekki morð. En vilji svo til, að kona sé dæmd fyrir morð, líður ekki á löngu uns upphefst áróður fyrir því, að hún sé látin laus. Kvenmorðingjar komast þannig hjá hengingu, nema einu sinni eða tvisvar á aldarfjórðungi.“

„[R]aunin er sú, að hengingar kvenna hafa verið aflagðar fyrir konur, sem myrða karla sína. Það gildir þó öðru máli, myrði þær aðrar konur eða börn þeirra. En samt sem áður sleppa þær við hengingu, drepi þær eigin kornabörn.“ Hver svo sem glæpurinn er, þ.e. ekki einungis dráp eigin ungbarna, er miklu auðveldara á fá dóminn mildaðan. Einnig er það miklu auðveldara fyrir konu að losna úr fangelsi.

Meinsæri: Konur beita einnig þeim klækjum að bera á karla rangar sakargiftir, stunda meinsæri. Þeim er ekki refsað. Sumar læra meinsærislistina snemma. T.d. sinnaðist tveim unglingstúlkum við föður sinn, þegar hann tók í lurginn á þeim fyrir þjófnað. Þær kærðu hann fyrir að hafa flekað sig. „Það er fyrir því óræð ástæða, að kona skuli álitin ófær um að smána karlmann.“

Kynferðislegt ofbeldi: Tæli kona undir lögaldri karl til samræðis, er hann sekur gerr fyrir afbrot. Öðru máli gegnir um drengi undir lögaldri, tældir til samræðis af fullvaxta konu: „Rýja nokkur bar vitni um, að hún hefði tælt til samræðis nokkra drengi, yngri henni að árum. Áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu, að drengina skyldi dæma til fangelsisvistar. Konan var laus allra mála.“

Falskar ákærur kvenna um kynferðislegt ofbeldi karla voru þekktar:  Árið 1893 segir hinn virti skurð- og kvenlæknir Robert Lawson Tait (1845-1899): „[Þ]að má ljóst vera, að fjöldi falskra ákæra í þessu efni er ískyggilega mikill.“ Stundum eru þær framsettar af einskærri hefnigirni, stundum til að þvinga fram hjúskap, stundum til fjárkúgunar. Hann segir einnig: „[E]nda þótt karlar hendi að því gaman og spaugyrði leiki þeim á vörum, forðast þeir að ferðast aleinir í járnbrautarklefa með ókunnri konu. Þeim er fullkunnugt um það, að bendi kona að honum fingri með ásökun um kynferðislega áreitni, eru honum allar bjargir bannaðar – og gildir þá einu, hver dómur réttarins verður.“

Það var á valdi eiginkonunnar að draga karl sinn fyrir kvenvænan rétt, sem dæmdi samkvæmt kvenhollum lögum. Þar að auki var það í hennar valdi, að eyðileggja mannorð hans. „Berji karl ögrandi konu frá sér – og þá má einu gilda, hversu særandi, ósvífin eða ofbeldisfull ögrunin er  - eru viðurlög skilnaður og refsivinna; [aukin heldur] eru eigur hans gerðar upptækar eða laun hans tekin að veði. Allt gengur þetta umsvifalítið fyrir sig fyrir tilstilli löggæsluréttarins [„police court,“ lægsta stig sakadóms].“ 

Skilnaðarréttur var stofnaður 1857. Síðan hafa öll réttindi eiginkarls verið að engu gerð eða ákvæði þess efnis numin úr lögum, samtímis því hafa öll eldri ákvæði, sem tryggja rétt eiginkvenna, haldið velli, og fleirum bætt við, eins og þeirri, að eiginkarli beri að sjá fyrir ótrúrri eiginkonu jafnvel við skilnað.

Orð Ernest Belfort Bax hljóma eflaust kunnuglega í eyrum þeirra, sem látið hafa sig jafnrétti kynjanna varða. Barátta kvenna hefur um langan aldur verið háð undir fölsku flaggi jafnréttis og að miklu leyti snúist um að viðhalda forréttindum þeirra, skráðum og óskráðum. Ennþá gera konur kröfur um framfærslu (frá körlum/hinu opinbera); ennþá er mæðrum miklu oftar dæmd forsjá barna, heldur en feðrum; enn þá er miklu harðar gengið fjárhagslega að körlum; ennþá er miklu oftar litið á karla sem kynfauta og misyndismenn;  ennþá er liðin alls konar fordæming karla; ennþá er litið mildari augum á afbrot kvenna (séu þau yfirleitt viðurkennd); ennþá hljóta karlar harkalegri dóma; ennþá er konum ívilnað í samfélaginu almennt og yfirleitt. Ástandið er svipað á öllum Vesturlöndum.

Stundum hefur löggjafinn reyndar ekki rænu á að fela misréttið. “ Í sænsku jafnstöðulögunum (jämndställdhetslagen) stendur t.a.m.: „Fyrst og fremst er tilgangurinn með lögum þessum að bæta skilyrði kvenna í atvinnulífinu.“ Í seinni lögum um sama málefni (diskrimineringslagen) er svo kveðið á um eða túlkað: „Bannið við mismunun hindrar ekki, að körlum og konum sé mismunað, að því tilskildu, að markmiðið sé réttlætanlegt og sú aðferð, sem beitt er, sé við hæfi og nauðsynleg til að ná takmarkinu.“ T.d. „Bannið hindrar ei heldur beitingu ákvæða um skráningu til herþjónustu og herskyldu eingöngu fyrir karla [...].“ Ennfremur: „Bann við mismunun hindrar ekki aðgerðir, þegar um er að ræða viðleitni til að stuðla að jafnrétti kynjanna.“ (Pär Ström)

Höfundur er ellilífeyrisþegi. Ótilgreindar þýðingar eru undirritaðs.




Skoðun

Sjá meira


×