Körfubolti

Áttundi þrjátíu framlagsstiga leikur Milka í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominykas Milka.
Dominykas Milka. Vísir/Daníel

Dominykas Milka átti enn einn stórleikinn með Keflavík í gær þegar liðið vann sannfærandi ellefu stiga sigur í toppslag á móti Tindastól.

Dominykas Milka skilaði 30 framlagsstigum í leiknum en hann var með 27 stig, 11 fráköst og 62 prósent skotnýtingu.

Þetta var áttundi 30 framlagsstiga leikur Milka í vetur og næstur honum kemur Fjölnismaðurinn Viktor Lee Moses með fimm leiki með 30 eða fleiri framlagsstig.

Dominykas Milka var valinn besti leikmaður fyrri hlutans í Domino´s deild karla og hann ætlar ekkert að slaka á nú þegar nýtt ár er gengið í garð.

Dominykas Milka er með 30,3 framlagsstig að meðaltali í 11 leikjum en hann missti af einum leik fyrir áramót þegar hann tók út leikbann.

Milka hefur aðeins mistekist þrisvar sinnum að skila 30 framlagsstigum í leik en einn af þeim leikjum er leikur á móti Fjölni sem var jafnframt fyrsti leikur Milka eftir leikbannið. Hinir leikirnir eru leikur á móti Njarðvík þar sem hann var með 29 framlagsstig og leikur á móti Val þar sem hann var með 16 framlagsstig.

Aðeins íslenskir leikmenn hafa náð tveimur leikjum með 30 eða meira í framlagi en það eru Stjörnumennirnir Hlynur Bæringsson og Ægir Þór Steinarsson.

Flestir leikir með 30 framlagsstig í Domino´s deild karla í vetur:

8 - Dominykas Milka, Keflavík

5 - Viktor Lee Moses, Fjölni

4 - Evan Christopher Singletary, ÍR

4 - Georgi Boyanov, ÍR

4 - Michael Craion, KR

3 - Deane Williams, Keflavík

3 - Khalil Ullah Ahmad, Keflavík

Leikir Dominykas Milka með 30 eða fleiri framlagsstig:

35 framlagsstig - Í sigri á Tindastól 3. október

36 framlagsstig - Í sigri á Grindavík 10. október

37 framlagsstig - Í sigri á Stjörnunni 25. október

37 framlagsstig - Í sigri á Þór Ak. 7. nóvember

30 framlagsstig - Í tapi fyrir KR 15. nóvember

34 framlagsstig - Í tapi fyrir Þór Þorl. 13. desember

37 framlagsstig - Í sigri á ÍR 19. desember

30 framlagsstig - Í sigri á Tindastól 6. janúar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×