Erlent

Mynd­band sagt sýna það þegar úkraínska far­þega­vélin varð fyrir írönsku flug­skeyti

Eiður Þór Árnason skrifar
Vélin hrapaði skömmu eftir flugtak.
Vélin hrapaði skömmu eftir flugtak. Vísir/AP

New York Times hefur birt myndband sem virðist sýna íranskt flugskeyti lenda á úkraínsku farþegavélinni sem hrapaði aðfaranótt miðvikudags. Vélin er sögð vera stödd fyrir ofan írönsku borgina Parand þar sem hún hætti að senda frá sér merki skömmu áður en hún hrapaði með 176 manns innanborðs.

Parand er staðsett nálægt alþjóðaflugvellinum í Teheran, höfuðborg Írans, þaðan sem hún tók á loft stuttu áður en hún fórst.

Bandarískir embættismenn fullyrða að hún hafi verið skotin niður af írönskum eldflaugum fyrir mistök en bandarískir miðlar greindu frá því í kvöld. Æðsti yfirmaður íranskra flugmálayfirvalda hefur neitað ásökununum í samtali við CBS og segir ályktun Bandaríkjamanna vera ósanna.

Sjá einnig: Misvísandi skilaboð frá Íran

Af myndbandinu að dæma sést lítil sprenging þegar vélin varð fyrir umræddu flugskeyti. Hún er sögð hafa flogið áfram í nokkrar mínútur áður en hún sneri við. Eftir það flaug hún í ljósum logum í átt að flugvellinum í Teheran áður en hún sprakk og hrapaði skyndilega, ef marka má önnur myndbönd af atvikinu sem TheNewYorkTimes segist hafa undir höndum.

Trump Bandaríkjaforseti sagði í dag aðspurður um málið að hann hafi haft sínar grunsemdir orsök slyssins. Hann sagði vélina hafa verið að fljúga yfir átakasvæði þegar hún hrapaði. „Þetta er sorglegt en mögulega gerði einhver mistök hinum megin.“

Greint var frá því í dag að bandarískir gervihnettir hafi numið tvær eldflaugar fara á loft stuttu áður en farþegavélin sprakk. Bandarískum embættismönnum var greint frá þessu í dag samkvæmt heimildum CBS og hefur miðillinn eftir ónefndum heimildarmanni að eldflaugapartar hafi fundist nálægt slysstað. Ratsjárgögn eru einnig sögð styðja þessa fullyrðingu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Misvísandi skilaboð frá Íran

Forsvarsmenn herafla Íran segjast geta skotið hundruðum eldflauga til viðbótar við þær þrettán sem skotið var frá Íran á herstöðvar í Írak á aðfaranótt miðvikudags.

Íranir segjast ekki ætla að af­henda flug­ritann

Íranir segjast ekki ætla að afhenda flugrita úkraínsku farþegaþotunnar sem fórst í Teheran með 176 innanborðs í gær til bandarískra yfirvalda eða flugvélaframleiðandans Boeing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×