Körfubolti

Engin miskunn hjá NBA: Mátti ekki ná sér í mat og er kominn í sóttkví

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Richaun Holmes er leikmaður Sacramento Kings en hann er með 12,8 stig og 8,3 fráköst að meðaltali til þessa á tímabilinu. Hann er 208 sentímetra og 108 kílóa kraftframherji.
Richaun Holmes er leikmaður Sacramento Kings en hann er með 12,8 stig og 8,3 fráköst að meðaltali til þessa á tímabilinu. Hann er 208 sentímetra og 108 kílóa kraftframherji. Getty/Lachlan Cunningham

Richaun Holmes hjá Sacramento Kings má ekki umgangast liðsfélaga sína á næstunni því hann er kominn í sóttkví. Ástæðan er að hann gerðist sekur um að yfirgefa NBA-svæðið í Disney World í Orlando.

NBA-deildin er með mjög harðar sóttvarnarreglur í NBA-kúlunni í Orlando og þær mega leikmenn alls ekki brjóta.

„Ég er í sóttkví og á átta daga eftir af henni. Ég bið alla afsökunar á hegðun minni og hlakka til að komast aftur til liðsfélaga minna þar sem við ætlum að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni,“ skrifaði Richaun Holmes á Twitter.

Mamma hans lét hann líka heyra það á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.

Richaun Holmes pantaði sér mat utan NBA-kúlunnar og fór síðan að ná í hana. Leikmenn hafa margir kvartað yfir matnum sem er boðið upp á þarna og Holmes ætlaði að fara sína eigin leiðir í kvöldmatnum sem hann mátti alls ekki.

NBA hefur safnað öllum liðum, leikmönnum og starfsmönnum saman í Disney World í Orlando og þar verða allir að halda sig þar til að NBA-tímabilið klárast. Það er mikið um smit í Flórída sem og flestum öðrum fylkjum Bandaríkjanna og því er hættan mikil fari leikmenn út fyrir NBA-kúluna.

Fyrsti NBA-leikurinn síðan í mars fer fram 30. júlí næstkomandi en úrslitakeppninni lýkur ekki fyrr en í október.

Annar leikmaður sem þarf að vera í sóttkví í herberginu sínu er Bruno Caboclo hjá Houston Rockets.

NBA gaf það út í gær að 2 leikmenn af þeim 322 sem hafa verið prófaðir við komuna til Orlando hafa fengið jákvæða útkomu út úr kórónuveiruprófinu. Báðir þeir leikmenn yfirgáfu NBA-kúluna í Orlando til að ná sér í einangrum annað hvort heima hjá sér eða á öðrum góðum stað.

Russell Westbrook tilkynnti í gær að hann væri með Covid-19 sjúkdóminn en að hann hefði greinst áður en hann fór til Orlando. Westbrook ætlar að mæta á svæðið þegar hann fær leyfi til þess.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×