Lífið

Hollensk Euro­vision-stjarna flutti Husa­vik af inn­lifun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Edsilia Rombley tók þátt í Eurovision fyrir hönd Hollands árið 2007.
Edsilia Rombley tók þátt í Eurovision fyrir hönd Hollands árið 2007. Skjáskot/Youtube

Hollenska Eurovision-stjarnan Edsilia Rombley flutti á dögunum lagið Husavik úr Eurovision-kvikmynd Wills Ferrells á sviði í Rotterdam. Hluti lagsins er á íslensku og fór framburðurinn Rombley nokkuð vel úr hendi.

Lagið Husavik hefur notið mikilla vinsælda eftir að kvikmyndin Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga var frumsýnd á streymisveitunni Netflix í júní. Lagið er ástaróður til Húsavíkur og er þar meðal annars sungið á íslensku: „Vera með þér, í Húsavík við Skjálfanda, í heimabærinn minn“. Flytjendur lagsins í myndinni eru aðalleikarinn Will Ferrell og hin sænska Molly Sandén, sem ljær karakter Rachel McAdams söngrödd sína.

YouTube-rás Netflix í Hollandi og Belgíu birti í dag myndband af laginu í flutningi Edsiliu Rombley, hollenskrar söngkonu sem tók þátt í Eurovision fyrir hönd þjóðar sinnar árið 2007. Rombley þessi átti jafnframt að vera kynnir keppninnar í Rotterdam nú í maí. Ekkert varð úr kynnastörfunum, að minnsta kosti í bili, þar sem Eurovision var aflýst vegna kórónuveirunnar, líkt og Íslendingum er flestum kunnugt. Framlag Rombley í Eurovision á sínum tíma má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Rombley flytur Husavik af mikilli innlifun á sviðinu í Rotterdam og á ekki í miklum erfiðleikum með íslenska hreiminn, sem hefur hingað til vafist fyrir mörgum sem spreyta sig á laginu. Nokkuð vantar þó upp á framburð hennar á „Skjálfanda“ en í meðförum Rombley verður hann að því sem útleggst gæti sem „Skjaldarna“.

Kröftugan flutning Rombley á laginu Husavik má hlýða á í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Lagahöfundur í Eurovision-myndinni vill senda lag í Söngvakeppnina

Arnþór Birgisson, sem samdi ásamt öðrum lagið Double Trouble, sem flutt var í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, segir það hafa verið tilviljun að sænska söngkonan Molly Sandén, sem syngur fyrir persónu Rachel McAdams í myndinni, hafi verið fengin í hlutverkið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.