Erlent

Fimm árum of lengi í fangelsi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fáni Samóaeyja. Fangelsismál þar hafa verið harðlega gagnrýnd.
Fáni Samóaeyja. Fangelsismál þar hafa verið harðlega gagnrýnd. Vísir/Getty

Sio Agafili, samóskur 45 ára karlmaður, var tæpum fimm árum lengur í fangelsi en hann átti að vera. Hvorki hann né fangelsismálayfirvöld virðast hafa áttað sig á því að hann átti að afplána tvo fimm ára dóma sem hann hafði hlotið samtímis.

Guardian fjallar um málið. Þar segir að Agafili hafi verið dæmdur í fimm ára fangelsi í desember 2008, en hann hlaut tvo jafnlanga dóma fyrir innbrot annars vegar, og þjófnað hins vegar. Á Samóaeyjum er það venjan að fangelsisdómar séu afplánaðir samtímis, nema annað sé tekið fram. Agafili átti því að losna úr fangelsi í desember árið 2015.

Í viðtali við Samoa Observer segir Agafili að honum hafi aldrei verið greint frá raunverulegri lengd þess tíma sem hann átti að afplána.

„Enginn sagði mér hvenær fangelsisvistinni átti að ljúka. Ég týndi tölunni á dögunum. Ég man ekki mikið um hvenær ég átti að losna, ég veit bara að ég þurfti að ljúka afplánun minni.

Enginn hafði komist á snoðir um þessa yfirsjón fyrr en í síðustu viku, þegar hæstaréttardómari áttaði sig á málinu. Þá átti Agafili að koma fyrir dómara vegna ákæru fyrir líkamsárás í uppþotum og fjöldaflótta úr Tanumalala-fangelsinu, þar sem Agafili var haldið.

Fyrir dómi viðurkenndi lögregla að Agafili hefði verið haldið í fangelsinu án dóms og laga.

Muriel Lui, lögmaður Agafili, segir að nú vinni hann að því að fara yfir næstu skref með skjólstæðingi sínum. Líklegt væri að hann myndi reyna að sækja einhverjar bætur vegna málsins og að í hans huga væri nokkuð skýrt að um brot á stjórnarskrárvörðum réttindum hans væri að ræða.

Þá sagðist Lui hafa áhyggjur af því að fleiri fangar á Samóaeyjum væru í sömu stöðu, en fangelsiskerfi þar hefur verið harðlega gagnrýnt megna mannréttindabrota, spillingar og brotalama í stjórnsýslu þess.

Í mars á þessu ári var ríkisstofnun sem fór með fangelsismál leyst upp, og lögreglan í landinu tók við stjórn fangelsanna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.