Handbolti

Alexander Petersson fertugur í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Petersson lék einkar vel með íslenska landsliðinu á EM í upphafi þessa árs.
Alexander Petersson lék einkar vel með íslenska landsliðinu á EM í upphafi þessa árs. epa/ANDREAS HILLERGREN

Alexander Petersson, einn besti handboltamaður sem Ísland hefur átt, fagnar fertugsafmæli sínu í dag.

Hann var lykilmaður í íslenska landsliðinu sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og bronsverðlauna á Evrópumótinu 2010. Sama ár var Alexander valinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna.

Alexander fæddist í Ríga, höfuðborg Lettlands, þann 2. júlí 1980. Hann kom til Íslands 1998 og gekk í raðir Gróttu/KR.

Þar lék Alexander til 2003 þegar hann fór til þýska liðsins Düsseldorf. Hann var valinn besti sóknarmaður efstu deildar á sínu síðasta tímabili á Íslandi.

Alexander hefur leikið samfleytt í Þýskalandi í sautján ár. Hann var hjá Düsseldorf í tvö ár en fór til Grosswallstadt 2005. Eftir tveggja ára dvöl þar hélt Alexander til Flensburg.

Alexander samdi við Füchse Berlin 2009 og lék þar undir stjórn Dags Sigurðssonar í þrjú ár. Frá 2012 hefur hann leikið með Rhein-Neckar Löwen.

Alexander fagnar þýska meistaratitlinum með Rhein-Neckar Löwen 2017.getty/Uwe Anspach

Hjá Löwen hefur Alexander unnið nokkra titla. Liðið varð Þýskalandsmeistari 2016 og 2017, bikarmeistari 2018, vann þýska ofurbikarinn 2016, 2017 og 2018 og EHF-bikarinn 2013. Þá var Guðmundur Guðmundsson þjálfari Löwen.

Alexander fékk íslenskan ríkisborgararétt í byrjun árs 2003 en þurfti að bíða til 2005 eftir að leika með íslenska landsliðinu. Hann lék sinn fyrsta landsleik 5. janúar 2005 í eins marks tapi fyrir Svíþjóð, 28-29, í Borås. Alexander skoraði þrjú mörk í leiknum.

Fyrsta stórmót Alexanders með íslenska landsliðinu var HM í Túnis 2005. Hann lék á öllum stórmótum sem Ísland fór á til 2012. Alexander var í stóru hlutverki í silfurliðinu 2008 og bronsliðinu 2010.

Alexander í leik gegn Argentínu á Ólympíuleikunum í London 2012.getty/Jeff Gross

Hann var svo valinn í úrvalslið HM 2011. Þar var Alexander markahæstur Íslendinga og sjötti markahæstur í heildina með 53 mörk.

Alexander kom aftur í íslenska landsliðið 2015 og lék með því á HM 2015 og EM 2016. Hann sneri enn og aftur í landsliðið fyrir EM í byrjun þessa árs þar sem hann var með bestu leikmönnum Íslands. 

Alexander skoraði 23 mörk á EM og var markahæstur Íslendinga á mótinu ásamt Aroni Pálmarssyni og Bjarka Má Elíssyni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.