Handbolti

Alexander Petersson fertugur í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Petersson lék einkar vel með íslenska landsliðinu á EM í upphafi þessa árs.
Alexander Petersson lék einkar vel með íslenska landsliðinu á EM í upphafi þessa árs. epa/ANDREAS HILLERGREN

Alexander Petersson, einn besti handboltamaður sem Ísland hefur átt, fagnar fertugsafmæli sínu í dag.

Hann var lykilmaður í íslenska landsliðinu sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og bronsverðlauna á Evrópumótinu 2010. Sama ár var Alexander valinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna.

Alexander fæddist í Ríga, höfuðborg Lettlands, þann 2. júlí 1980. Hann kom til Íslands 1998 og gekk í raðir Gróttu/KR.

Þar lék Alexander til 2003 þegar hann fór til þýska liðsins Düsseldorf. Hann var valinn besti sóknarmaður efstu deildar á sínu síðasta tímabili á Íslandi.

Alexander hefur leikið samfleytt í Þýskalandi í sautján ár. Hann var hjá Düsseldorf í tvö ár en fór til Grosswallstadt 2005. Eftir tveggja ára dvöl þar hélt Alexander til Flensburg.

Alexander samdi við Füchse Berlin 2009 og lék þar undir stjórn Dags Sigurðssonar í þrjú ár. Frá 2012 hefur hann leikið með Rhein-Neckar Löwen.

Alexander fagnar þýska meistaratitlinum með Rhein-Neckar Löwen 2017.getty/Uwe Anspach

Hjá Löwen hefur Alexander unnið nokkra titla. Liðið varð Þýskalandsmeistari 2016 og 2017, bikarmeistari 2018, vann þýska ofurbikarinn 2016, 2017 og 2018 og EHF-bikarinn 2013. Þá var Guðmundur Guðmundsson þjálfari Löwen.

Alexander fékk íslenskan ríkisborgararétt í byrjun árs 2003 en þurfti að bíða til 2005 eftir að leika með íslenska landsliðinu. Hann lék sinn fyrsta landsleik 5. janúar 2005 í eins marks tapi fyrir Svíþjóð, 28-29, í Borås. Alexander skoraði þrjú mörk í leiknum.

Fyrsta stórmót Alexanders með íslenska landsliðinu var HM í Túnis 2005. Hann lék á öllum stórmótum sem Ísland fór á til 2012. Alexander var í stóru hlutverki í silfurliðinu 2008 og bronsliðinu 2010.

Alexander í leik gegn Argentínu á Ólympíuleikunum í London 2012.getty/Jeff Gross

Hann var svo valinn í úrvalslið HM 2011. Þar var Alexander markahæstur Íslendinga og sjötti markahæstur í heildina með 53 mörk.

Alexander kom aftur í íslenska landsliðið 2015 og lék með því á HM 2015 og EM 2016. Hann sneri enn og aftur í landsliðið fyrir EM í byrjun þessa árs þar sem hann var með bestu leikmönnum Íslands. 

Alexander skoraði 23 mörk á EM og var markahæstur Íslendinga á mótinu ásamt Aroni Pálmarssyni og Bjarka Má Elíssyni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.