Körfubolti

Martin þýskur meistari

Anton Ingi Leifsson skrifar
Liðsmynd eftir sigurinn.
Liðsmynd eftir sigurinn. vísir/getty

Martin Hermannsson og félagar hans í Alba Berlín eru þýskir meistarar í körfubolta eftir sigur á Ludwigsburg í síðari úrslitaleiknum, 75-74.

Alba Berlín var með pálmann í höndunum eftir fyrri leikinn en þeir unnu leik liðanna á föstudagskvöldið með 23 stiga mun, 88-65.

Leikurinn í dag var því hálfgert formsatriði en Alba menn voru staðráðnir í því að gefa ekkert eftir og leiddu eftir fyrsta leikhluta 21-11. Þeir voru svo 42-35 yfir i hálfleik.

Í síðari hálfleik höfðu Alba menn áfram tögl og haldir á leiknum og Ludwigsburg tók fyrst almennilegt áhlaup undir lok leiksins. Lokatölur þó sigur Alba, 75-74 og liðið því þýskur meistari.

Martin var næst stigahæstur hjá Alba í leiknum. Hann gerði fjórtán stig, tók fimm fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Í úrslitaeinvíginu gerði Martin samtals 28 stig, gaf ellefu stoðsendingar og tók sjö fráköst.

Sigurinn er einn sá stærsti fyrir íslenskan körfuboltamann en enginn íslenskur körfuboltamaður hefur orðið landsmeistari í einum af stærstu deildunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×