Viðskipti innlent

Icelandair stefnir á að hefja flug 15. júní

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Flugfloti Icelandair á Keflavíkurflugvelli í samgöngubanni
Flugfloti Icelandair á Keflavíkurflugvelli í samgöngubanni Vísir/Vilhelm

„Við stefnum á að komast á flug upp úr 15. júní og ná sem fyrst að komast í daglega tíðni til okkar helstu áfangastaða til að byrja með og svo auðvitað fylgjumst við eins og allir aðrir með tilkynningum frá okkar nágrannalöndum um hvenær þau opna,“ sagði Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair í Reykjavík síðdegis í dag.

Birna sagði stefnt að því að byrja á að fljúga til Berlínar, Frankfurt, Kaupmannahafnar og vonandi Óslóar að því gefnu að opnun landanna fari eins og félagið spáir fyrir um. „Svo vonandi bætast fleiri staðir á þessu svæði við: Stokkhólmur, London, Munchen, Amsterdam og þetta svæði.“

Hún sagði að gert verði bæði ráð fyrir því að Íslendingar fljúgi út sem og að erlendir ferðamenn komi hingað til landsins. „Við finnum alveg að landar okkar eru spenntir að kíkja aðeins til útlanda og vilja byrja kannski svona frekar nálægt heimahögunum. Svo auðvitað erum við í miklu samstarfi um allan heim við ferðaskrifstofur sem eru að flytja ferðamenn til Íslands.“

„Það er nú svo frábært að segja frá því að þar er mikill áhugi. Við erum að koma vel út úr þessari krísu og það er mikið fjallað um það þannig að þeir sem hafa komið með ferðamenn til Íslands og ætluðu að koma með ferðamenn til Íslands eru enn þá með það á sínum plönum,“ sagði Birna.

Þá sagði hún enn óljóst hvort fólk þyrfti að fara í sóttkví á áfangastöðunum. „Flestar ríkisstjórnir þessara landa ætla að koma með nánari útfærslur fyrir lok maí. Það sem við erum að hugsa, því þetta breytist svo hratt, að við ætlum að setja upp eins mikið af upplýsingum á okkar síðu og við getum þannig að Íslendingar geti tekið eins upplýsta ákvörðun og hægt er um sín plön.“

„Utanríkisráðuneytið er að gera svipað og leyfir okkur að fylgjast með því sem er að gerast þannig við getum séð hvað er hægt að gera. Það sem við erum líka að safna saman og munum miðla þegar það er komið betur á hreint er hvað er raunverulega að gerast í hverri borg,“ sagði Birna.

Hún sagði þá óljóst hve mörgum vélum verði flogið til að byrja með en allar þeirra vélar séu tilbúnar til starfa. „Við erum auðvitað öll sem erum hérna enn þá að vinna að því að fá sem flesta til baka eins hratt og við getum þannig að jú, um leið og við förum að sjá betur inn í það þá vonandi getum við farið að fá okkar góða samstarfsfólk aftur.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×