Skoðun

Réttindi fólks besta vörnin gegn veirunni

Drífa Snædal skrifar

Ég ætla ekki að fjölyrða um erfiðleikana sem við stöndum frammi fyrir, við erum öll upplýst um þá en við skulum passa okkur á þeirri klisju að við séum öll í sama báti. Við erum það ekki. Aðstæður fólks eru mjög misjafnar. Sumir hafa borð fyrir báru í orlofsdögum, veikindarétti og jafnvel sparifé á meðan lítið má út af bregða hjá öðrum. Við erum sem sagt ekki öll í sama báti og höfum aldrei verið. Við þurfum hins vegar að sannmælast um aðgerðir sem tryggja hag almennings en ekki sérhagsmuna, vernda þá sem verst standa og á sama tíma ná markmiðum um að hefta útbreiðslu veirunnar.

Alþýðusambandið er í samskiptum við stjórnvöld og atvinnurekendur um nauðsynleg fyrstu viðbrögð til að tryggja afkomu fólks, en sú trygging mun ráða úrslitum um hvort hægt sé að hægja á útbreiðslu COVID-19. Þau lönd sem beita samfélagslegum lausnum og hafa almannakerfi til að styðjast við standa miklu betur að vígi en þau lönd þar sem hver verður að bjarga sjálfum sér. Það er ekki tilviljun að fyrsta verk ríkisstjórna Norðurlandanna var að tryggja greiðslur til fólks í veikindum eða sóttkví, það er besta vörnin. Næsta vers er að bregðast fljótt og örugglega við öðrum þáttum og við munum næstu daga móta þær aðgerðir sem við teljum brýnastar til lengri og skemmri tíma.

Ein stærsta hættan í óvissuástandi, hamförum eða efnahagsþrengingum er að hlaupið sé til og teknar afdrifaríkar ákvarðanir sem veikja kerfi sem eiga að tryggja almannahag. Við búum að því í dag að ekki var gripið til stórfelldrar einkavæðingar eða verðmætar þjóðareignir seldar í hruninu fyrir tólf árum. Það réði úrslitum um að kreppan varð ekki dýpri.

Það er stefnt að því að síðar í dag berist fréttir af ráðstöfunum til að tryggja hag vinnandi fólks, bæði sem er í sóttkví og þess sem starfar hjá fyrirtækjum sem þurfa að draga saman seglin. Frekari tillögur og kröfur verkalýðshreyfingarinnar verða svo kynntar næstu daga.

Verndum kerfin okkar, hóstum í klúta, þvoum og sprittum!

Góða helgi, Drífa

Höfundur er forseti ASÍ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×