Körfubolti

Grindavík fær góðan liðsstyrk úr Njarðvík

Sindri Sverrisson skrifar
Kristinn Pálsson er orðinn leikmaður Grindavíkur. Svona handsala menn samninga á Covid-tímum.
Kristinn Pálsson er orðinn leikmaður Grindavíkur. Svona handsala menn samninga á Covid-tímum.

Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson hefur skrifað undir samning við Grindavík um að spila í gula búningnum á næstu leiktíð í Domino's-deildinni í körfubolta.

Kristinn, sem er 22 ára gamall, skoraði tæplega 10 stig að meðaltali í leik með Njarðvík í vetur, tók 5,4 fráköst og gaf 1,6 stoðsendingu. Grindavík, sem hafnaði í 8. sæti Domino's-deildarinnar í vetur, hefur því fengið góðan liðsstyrk frá Njarðvík sem endaði í 5. sæti deildarinnar.

Kristinn hélt ungur utan og lék með liði Stella Azzurra á Ítalíu samhliða námi þegar hann var 16-18 ára, og fór þaðan til Marist-háskólans í New York ríki í Bandaríkjunum. Hann sneri aftur heim til Njarðvíkur haustið 2017 en fékk reyndar ekki leikheimild með liðinu fyrr en snemma árs 2018, eftir ágreining á milli Njarðvíkur og Stella Azzurra um uppeldisbætur.

„Kristinn er frábær leikmaður sem hlaut góða þjálfun ungur að árum í Njarðvík og úr góðu prógrammi á Ítalíu þar sem hann stóð sig vel. Sömuleiðis hefur hann leikið með einu sterkasta yngri landsliði Íslands ásamt því að hafa verið í háskólaboltanum,“ segir Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, og bætir við:

„Ég þjálfaði Kristin í Njarðvík þegar hann kom heim úr skóla, þannig ég þekki hann vel. Það er sterkt fyrir okkar lið að fá hávaxinn bakvörð, sem er góður skotmaður og frákastar sömuleiðis vel. Hann hefur að geyma mikla körfuboltahæfileika en það sem eru hvað sterkustu eiginleikarnir hjá Kristni eru leiðtogahæfileikar hans og skilningur á leiknum.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.