Viðskipti innlent

Atvinnuleysi gæti náð hæstu hæðum í apríl

Samúel Karl Ólason skrifar
Líklegast munu margir útlendingar í ferðaþjónustu fara frá landi þegar ferðatakmörkunum verður aflétt.
Líklegast munu margir útlendingar í ferðaþjónustu fara frá landi þegar ferðatakmörkunum verður aflétt. Vísir/Vilhelm

Búast má við því að atvinnuleysi verðið allt að fimmtán prósent í þessum mánuði. Ef það gerist yrði það mesta atvinnuleysi sem mælst hefur. Um 40 prósent atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar og mun minni brottflutningur frá Íslandi valda þungu höggi á hérlendan vinnumarkað.

„Hlutfall útlendinga í ferðaþjónustu er mun hærra á sumrin en á veturna sem bendir til þess að stór hluti vinnuaflsins sé tiltölulega laus. Kemur og fer. Það kemur til með að milda höggið fyrir ferðaþjónustuna en höggið verður eftir sem áður svakalegt,“ segir Ari Skúlason, sérfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, í samtali við Fréttablaðið.

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir líklegt að þegar ferðatakmörkunum verði aflétt sé líklegt að útlendingar sem hafi starfað í ferðaþjónustu og annarsstaðar muni fara frá landi. Reynslan í kjölfar fjármálarhundsins 2008 sýni það.

Brottflutningurinn hafi þó verið minni en búist var við. Útlendingar sem hafi búið hér um lengri tíma, myndað sterkari tengsl við samfélagið og unnið sér inn þokkalegan atvinnuleysisbótarétt, hafi frekar ákveðið að setjast að á Íslandi en að fara.

Undanfarin ár hefur útlendingum á vinnumarkaði fjölgað hratt. Hlutfallið var um fjórðungur í fyrra en ellefu prósent árið 2010.

„Samhliða fjölgun þeirra á vinnumarkaðinum hefur hlutdeild útlendinga á atvinnuleysisskrá jafnframt vaxið jafnt og þétt en þeir voru um fjörutíu prósent atvinnulausra í lok síðasta árs, eins og áður sagði. Til samanburðar var hlutfallið á bilinu átján til tuttugu prósent á árunum 2012 til 2016,“ segir í Fréttablaðinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×