Viðskipti innlent

Fleiri hundruð kröfur og lík­legt að ó­eðli­legum greiðslum verði rift

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Einar Örn Ólafsson fyrrverandi forstjóri Play er á meðal þeirra sem lögðu til peninga í skuldabréfaútboðinu í ágúst síðastliðnum. Hann er því meðal kröfuhafa í maltneska dótturfélagið sem vinnur að því að halda starfsemi áfram sem leiguflugfélag í Austur-Evrópu.
Einar Örn Ólafsson fyrrverandi forstjóri Play er á meðal þeirra sem lögðu til peninga í skuldabréfaútboðinu í ágúst síðastliðnum. Hann er því meðal kröfuhafa í maltneska dótturfélagið sem vinnur að því að halda starfsemi áfram sem leiguflugfélag í Austur-Evrópu. Vísir/Anton Brink

Hundruðum krafna hefur verið lýst í þrotabú flugfélagsins Play sem varð gjaldþrota í lok september. Launakröfur starfsfólks liggja enn ekki fyrir. Skiptastjóri telur líklegt að þrotabúið sæki með riftun óeðlilegar greiðslur félagsins á þessum tíma.

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður hjá Lex og annar skiptastjóri Play, segir að nú þegar séu komnar fram hundruð krafna í þrotabúið. Frestur til að lýsa kröfum í búið rennur út í febrúar. Þá séu launakröfur frá um 400 starfsmönnum sem störfuðu fyrir félagið ekki komnar fram. Von sé á þeim á næstu vikum en þær séu forgangskröfur. Hann geti á þessu stigi ekki gefið upp hver heildarupphæð krafnanna sé.

Aðspurður hvort þrotabúið muni gera kröfu í maltneska dótturfélagið Fly Play Europe, segir Arnar það enn í skoðun. Unnið hefur verið að því að færa átta þotur sem Play var með á leigu yfir til félagsins og halda starfsemi þess í Austur-Evrópu áfram.

Arnar Þór er skiptastjóri ásamt Unni Lilju Hermannsdóttur hjá Landslögum. Hann segir mannskap í verkefninu frá Lex og Landslögum og það muni að líkindum taka nokkur ár að gera upp gjaldþrotið.  

Nú sé meðal annars verið að kanna hvert 2,8 milljarðar króna sem komu inn í félagið eftir skuldabréfaútboð Play í lok ágúst fóru. Skuldabréfaeigendurnir gátu samkvæmt samningum leyst maltneska dótturfélagið til sín. Ísafold Capital hefur staðið í viðræðum fyrir hönd kröfuhafanna um yfirfærslu á þotunum yfir í maltneska félagið. 

Arnar Þór segir ljóst að milljarðarnir tæplega þrír hafi sannarlega komið inn í félagið en nú þurfi að kanna hvert það fór. Hann segir að verið sé að skoða færslur nokkrar vikur aftur í tímann áður en félagið var lýst gjaldþrota. Þá sé skoðað hvort jafnræðis hafi verið gætt í greiðslum. Líklegt sé að þrotabúið sæki með riftun óeðlilegar greiðslur félagsins á þessum tíma. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×