Handbolti

Vill meiri stuðning frá ríkisvaldinu: „Þurfa að gera sér grein fyrir mikilvægi íþrótta fyrir samfélagið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir er ráðherra íþróttamála.
Lilja Alfreðsdóttir er ráðherra íþróttamála. vísir/vilhelm

Arnar Freyr Theodórsson, umboðsmaður handboltamanna á borð við Aron Pálmarsson og Sander Sagosen, segir að ástandið í handboltanum hér á landi gæti orðið erfitt vegna kórónuveirufaraldursins.

„Ég gæti trúað því að það yrði svolítið erfiðara fyrir liðin hér að fá peninga aftur inn. Það fyrsta sem fyrirtæki stoppa að borga eru styrkir til íþróttahreyfingarinnar. Þau halda frekar að sér höndum þar sem ég skil mjög vel,“ sagði Arnar í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportinu í dag.

Hann vill að ríkisvaldið styðji vel við bakið á íþróttahreyfingunni á Íslandi og betur en það hefur gert hingað til.

„Ég væri til í að fá ríkisstjórnina meira inn í þetta og gera sér grein fyrir mikilvægi íþrótta fyrir samfélagið í heild. Nú mæta stjórnmálamenn um leið og eitthvað gott gerist og láta taka myndir af sér með íþróttafólkinu en eru ekki tilbúnir að gera það sem til þarf,“ sagði Arnar.

„Nú er t.d. leikur á borði til að byggja höll fyrir innanhúss íþróttirnar. Eins að gera sér grein fyrir að laun íþróttamanna geta farið vel niður á við og þau þurfa að koma með beina styrki til íþróttafélaganna til að halda uppi sama starfi. Félögin eru fjárþurfi og við þurfum aðstoð.“

Klippa: Sportið í dag - Arnar Freyr vill ríkisaðstoð fyrir íþróttafélög

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×