Skoðun

Tími úlfanna

Sigurður E. Jóhannesson skrifar

Neyðarástand

„Aldrei láta alvarlegt neyðarástand fara til spillis” – sagði Rahm Emanuel fyrrum ráðgjafi Barack Obama einhverju sinni og útskýrði mál sitt þannig að þá væri hægt að gera hluti sem áður hefði ekki verið hægt að gera. Í bók sinni Shock Doctrine rakti Naomi Klein hvernig þessi hugmyndafræði hefur verið notuð af kapitalistum – með aðstoð velviljaðra stjórnmálaafla - til koma lagabreytingum í gegn sem almenningur hefði ekki samþykkt annars. Hugmyndin gengur út á að í neyðarástandinu beinist öll athygli almennings – og líkamleg og tilfinningaleg orka – að neyðinni sem um ræðir og því er ólíklegt að um verulega mótstöðu verði að ræða. Saul Alinsky lýsti sömu hugmyndafræði löngu fyrr í bókinni Rules for Radicals en þá var hann að tala um hvernig hægt væri að innleiða alræðisstjórn byggða á kommunískum grunni. Líklegt má telja að hér sé í raun um hugmyndafræði sem allir geta nýtt sér – hafi þeir til þess næg völd – pólitísk eða efnahagsleg - og séu þannig þenkjandi. Úlfarnir renna á blóðið.

Tími úlfanna

Óhætt er að segja að við séum að upplifa neyðarástand á hnattrænum skala þessa dagana. Af þessum sökum er afar mikilvægt að við – sem þjóð ekki síður en ráðamenn - rösum ekki um ráð fram heldur reynum eftir megni að taka vel ígrundaðar ákvarðanir – minnug þess að nú er tími úlfanna. Úlfarnir munu reyna allt sem þeir geta til að koma róttækum breytingum í lög - til þess eins að þeir sjálfir hagnist.

Íslenskt samfélag

Tilefni þessara skrifa sú umræða sem nú er að fara af stað um allan heim – og þá um leið hér heima - um að bólusetja þurfi alla við Covid-19, taka upp bólusetningarskírteini og setja þá í farbann sem ekki eru bólusettir. Hér er um gríðarlega róttækar hugmyndir að ræða. Hugmyndir sem ættu undir öllum kringumstæðum að vekja upp vel ígrundaðar umræður. Umræður þessar þurfa ekki síst að snúast um rétt ríkisvalds til inngripa í líf þegnanna og persónufrelsi. Yrðu athafnir sem þessar leiddar í lög í landinu væri um mestu skerðingu á persónufrelsi í sögu lýðveldisins að ræða. Grundvallarspurningin sem svara þarf er: Er það á valdi ríkisins að ákveða hvaða lyf þegnarnir taka? Ef svarið við þeirri spurningu er „já“ er óhætt að segja að íslenskt samfélag hafi tekið grundvallar breytingum og mun aldrei verða samt aftur. Og þá vaknar spurningin: Viljum við búa í slíku samfélagi? Ef ríkisvaldið getur ákveðið hvaða lyf við eigum að taka – hvar endar þá valdsvið þess? Mikilvægt er að við sem þjóð svörum þessum spurningum fyrir okkur sjálf – óháð því hvernig aðrar þjóðir svara þeim. Málið er of stórt til þess að við getum í blindni elt aðra án gagnrýnnar umræðu og ígrundunar.

Uppsprettan og óvissan

Það vekur óneitanlega furðu hvernig ólíklegasta fólk, allt frá þjóðarleiðtogum til milljarðarmæringa og tölvunörda, stígur nú fram og talar fyrir þessum hugmyndum. Þetta fólk virðist ætla að skauta algjörlega framhjá þessum grundvallar lýðræðisspurningum sem hugmyndin ræðst gegn. Að sama skapi er fjölda praktískra spurninga ósvarað á þessu stigi s.s. um vírusinn, bóluefnið og þessi bólusetningarskírteini. Málsvarar hugmyndanna ætlast þannig til að við samþykkjum þessar feykilega róttæku hugmyndir án allrar umræðu og án þess að vita í raun mikið um málið. Drífa þetta í gegn því nú er neyðarástand. Hljómar svolítið eins og beint úr handbók úlfanna. Aldrei láta alvarlegt neyðarástand fara til spillis.

Úlfar í sauðagæru

Á tímum sem þessum, frammi fyrir spurningum sem þessum - er nauðsynlegt að reyna að átta sig á hvar hagsmunirnir liggja – follow the money – eins þeir segja í útlandinu. Ljóst má vera að bólusetning heimsbyggðarinnar og gerð viðeigandi skírteina – væntanlega rafrænna – mun velta svo háum upphæðum að fæst okkar eigum auðvelt með að átta okkur á slíkum tölum. Einhverjir eiga því eftir að græða vel á aðgerðunum. Úlfarnir. En úlfarnir eru löngu búnir að læra að kasta yfir sig sauðagærunni. Sauðagæran í þessu tilviki er öryggi almennings og almannaheill. Við gerum vel í að bergmála ekki hugsunarlaust þessa möntru úlfanna – heldur hugsa málið vel og kalla eftir umræðum og öllum nauðsynlegum upplýsingum. Á sama tíma er skynsamlegt að gaumgæfa vel hvernig samfélag við viljum byggja. Viljum við byggja samfélag þar sem líkamar okkar eru í raun eign ríkisins því við höfum ekki ráðstöfunarvald yfir þeim lengur? Úlfarnir vita hvað þeir vilja – og þeir láta aldrei alvarlegt neyðarástand fara til spillis. Og eins alltaf og í öllu – eru það þeir sem eru með skýrasta viljan sem verða ofaná. Hvað viljum við Íslendingar?

Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Jón Þór Stefánsson skrifar

Sjá meira


×