Handbolti

„Evrópusambandið treysti sér ekki til þess að gefa svör núna“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rut Jónsdóttir leikmaður Íslands, Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals og Aron Pálmarsson leikmaður Íslands.
Rut Jónsdóttir leikmaður Íslands, Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals og Aron Pálmarsson leikmaður Íslands.

Karla- og kvennalandslið Íslands í handbolta eiga fyrirhugaða leiki í undankeppnum EM og HM en óvíst er hvort þessir leikir fara fram á tilsettum tíma. Einnig eiga Valsmenn að leika í EHF-bikarnum í júní en kórónuveiran hefur sett strik í reikninginn þar eins og á fleiri stöðum.

Guðjón Guðmundsson ræddi við Róbert Geir Gíslason, framkvæmdarstjóra HSÍ, í Sportpakka kvöldsins þar sem þeir fóru yfir stöðuna hjá landsliðinu og Val. Það er ekki allt búið hjá HSÍ nefnilega.

„Við erum enn með á dagskránni í sumar bæði karla- og kvennalandsleiki. Karlalandsliðið er fyrirhugað að spila við Sviss, heima og heiman, mánaðarmótin júlí og júní og kvennalandsliðið með fjóra leiki í undankeppni EM í byrjun júní. Við erum að bíða svara frá EHF hvað varðar um þessa leiki.“

Valsmenn eru komnir í 8-liða úrslit Áskorendabikarsins og áttu að leika gegn Halden frá Noregi í mars en þeim leikjum var frestað fram í júní. Óvíst er hvort eða hvenær þeir fara fram.

„Áður en við tókum ákvörðunina í gær um að aflýsa öllu hér heima þá vorum við í sambandi við Evrópusambandið. Við vorum að óska eftir svörum frá þeim bæði varðandi landsliðin og varðandi leiki Vals í Evrópukeppninni. Evrópusambandið treysti sér ekki til þess að gefa svör núna.“

„Þeir stefna á því að vera með svör tilbúin fljótlega eftir páska. Þangað til er bara óvissa. Við vitum ekki hvað þeir gera. Umræðan um Meistaradeildina er að spila hana í ágúst. Hvað verður vitum við ekki og bíðum svara eins og aðrir.“

Hefur Róbert trú á að allir þessir leikir fari fram?

„Ég hef trú á því að landsleikirnir verði leiknir á einhverjum tímapunkti. Ég efast um að kvennalandsleikirnir verði leiknir í byrjun júní. Það er bara svo skammt í það. Varðandi karlalandsliðið mánaðarmótin júní og júlí, ég veit ekki hvort við leikum þá eða í haust. Þeir leikir verða alltaf leiknir því við þurfum að skera úr hvaða lið fer á HM í Egyptalandi. Eins þarf að skera úr hvaða lið fer á EM í desember,“ sagði Róbert.

Innslagið má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Róbert um stöðuna hjá landsliðinu og Val


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.