Innlent

50% hærra olíuverð fyrir fiskiskip

Meðalverð á olíu til fiskiskipa er fimmtíu prósentum hærra í dollurum talið það sem af er mánuðinum en það var að meðaltali í fyrra og horfa útvegsmenn jafnvel fram á tap af úthafskarfaveiðum og kolmunnaveiðum.  Stór frystitogari tekur u.þ.b. 400 tonn af olíu fyrir hverja veiðiferð og kostaði skammturinn að meðaltali rúmlega 8,4 milljónir króna í fyrra. Fyrir sama skammt þarf útgerðin nú að greiða 12,7 milljónir, eða fjórum milljónum meira í hvern túr, en afurðaverð fyrir fiskinn hefur lítið sem ekkert hækkað á móti. Þetta kemur verst niður á skipum sem veiða í flottroll, eins og kolmunnaskipin þar sem gríðarmikla orku þarf til að draga veiðarfærin, og á frystitogurum sem auk þess að draga troll þurfa að knýja frystinguna með olíu. Algengt er að þessi skip noti á milli tíu og fimmtán tonn af olíu á sólarhring þannig að hækkun á hvern lítra er fljót að safnast í háar upphæðir. Þetta hittir sem sagt verst öll stærstu fiskiskip flotans. Mun minni olíueyðsla er hins vegar þegar veitt er á línu eða í net, og hvað þá á handfæri, þótt olíuhækkunin komi líka illa við útgerðir sem veiða með þeim aðferðum. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar segja útgerðarmenn kolmunnaskipa að það verði ekki fyrr en hann fer að veiðast hér við land að reksturinn komist hugsanlega réttu megin við núllið, því klárlega sé tap af veiðunum núna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×