Handbolti

Róbert tryggði Gummersbach stig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson tekur skot í leiknum í dag.
Ólafur Stefánsson tekur skot í leiknum í dag. Nordic Photos / Bongarts

Róbert Gunnarsson var hetja Gummersbach en liðið náði dýrmætu stigi er það gerði jafntefli við Rhein-Neckar Löwen í þýsku úrvalsdeildinni í dag.

Róbert skoraði jöfnunarmarkið þegar tíu mínútur voru til leiksloka en Rhein Neckar Löwen hafði yfir í hálfleik, 16-12.

Rhein Neckar Löwen skoraði fyrstu tvö mörkin í síðari hálfleik en þá komu átta mörk í röð frá Gummersbach sem komst yfir, 20-18. Jafnt var á flestum tölum eftir þetta.

Ólafur Stefánsson var markahæstur leikmanna Rhein-Neckar Löwen með fimm mörk. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði tvö og Guðjón Valur Sigurðsson eitt.

Ólafur og félagar máttu helst ekki við því að tapa stigum í dag en liðið er nú í fjórða sæti deildarinnar með þrettán stig. Gummersbach er í sjötta sætinu með tólf stig.

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Ahlener sem vann nauman sigur á varaliði Magdeburg í þýsku B-deildnini, 27-26. Ahlener er í öðru sæti norðurriðils deildarinnar með sautján stig eftir ellefu leiki.

Það var einnig leikið í Sviss í dag. Kadetten Schaffhausen, lið Björgvins Páls Gústavssonar landsliðsmarkvarðar, vann öruggan sigur á Fortitudo Gossau á heimavelli, 37-27. Kadetten er með fullt hús stiga eftir tíu leiki og með fjögurra stiga forystu á næsta lið í efsta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×