Handbolti

Sænskur þjálfari í árs bann fyrir kynþáttaníð

Sindri Sverrisson skrifar
Þjálfarinn Dick Tollbring er á leið í langt bann. Hann á börn í handboltanum, þar á meðal landsliðsmanninn Jerry Tollbring sem leikur með Rhein-Neckar Löwen.
Þjálfarinn Dick Tollbring er á leið í langt bann. Hann á börn í handboltanum, þar á meðal landsliðsmanninn Jerry Tollbring sem leikur með Rhein-Neckar Löwen. SAMSETT/@RIMBOHK/GETTY

Sænski handboltaþjálfarinn Dick Tollbring, pabbi landsliðsmannsins Tollbring, fær eins árs bann frá handbolta fyrir kynþáttaníð í garð dómara.

Það er Aftonbladet sem greinir frá banni Tollbrings en miðillinn segir hann hafa kallað „Ég er svo þreyttur á þessu svarta helvíti“ og beint orðum sínum til dómarans Mohamed Abdulkadir. Abdulkadir hafði þá dæmt tveggja mínútna brottvísun á leikmann Rimbo, sem Tollbring þjálfar, í leik við Kungälv í næstefstu deild sænska handboltans í mars.

Eftirlitsmaður á leiknum heyrði hvað Tollbring sagði og það gerðu sömuleiðis margir áhorfendur, þar á meðal gamla landsliðsgoðsögnin Stefan Lövgren. „Að segja svona lagað fer yfir öll velsæmismörk og stríðir gegn því sem íþróttir standa fyrir,“ sagði Lövgren við Aftonbladet.

Tollbring, sem þarf að halda sig frá handboltavellinum til 13. mars á næsta ári, hélt því fram að hann hefði ekki látið ummæli sín falla til að móðga dómarann heldur til að útskýra fyrir aðstoðarmanni sínum hvorn dómaranna tveggja hann væri að tala um.

Lágmarksrefsing fyrir gróf brot á borð við það sem Tollbring varð uppvís að er eitt ár en hámarksrefsing tvö ár. Tollbring hefur nú þrjár vikur til að ákveða hvort hann ætlar að áfrýja úrskurðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×