Innlent

Vilja hærra útsvar í Reykjavík

Frá fundi borgarstjórnar í ágúst sl.
Frá fundi borgarstjórnar í ágúst sl.

Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna vill dreifa álagi og hækka útsvar í Reykjavík. Hámarksútsvar hefur verið 13,03% en Alþingi samþykkti á dögunum að heimila sveitarfélögum að hækka útsvar í 13,28%. Reyjavíkurborg hefur nýtt sér hámarksútsvar undanfarin ár.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, lagði til á fundi borgarráðs á laugardaginn að útsvar verði óbreytt eða 13,03% þrátt fyrir heimild Alþingis. Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, lagði þá til breytingartillögu sem gekk út að fullnýta heimild borgarinnar til hækkunar útsvars.

Hærra útsvar kemur þyngra niður á þeim efnameiri

Miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi er rétt að nýta tekjustofna borgarinnar, að mati Svandísar. Í samtali við Vísi sagði hún að útsvar komi þyngra niður á þeim sem njóta hærri tekna meðan hætt er við að hagræðing komi niður á þeim sem síst skyldi.

Matur fyrir öll grunnskólabörn eða frítt í strætó

,,Þannig er álaginu dreift og unnt að nýta tekjurnar til að standa straum af verkefnum sem nýtast öllum og til að efla velferð og samfélagslegt öryggisnet í samdrættinum," sagði Svandís. Máli sínu til stuðnings sagði hún þessa útsvarshækkun gefa borgarsjóði 680 milljónir í tekjur og fyrir þá upphæð væri hægt að greiða skólamat fyrir öll grunnskólabörn í borginni.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, tók undir tillögu Svandísar og benti á að fyrir 580 milljóna króna viðbótarframlag væri hægt að hafa ókeypis í Strætó á höfuðborgarsvæðinu.

Tillögu Svandísar var vísað til borgarstjórnar.

Aukafundur borgarstjórnar hófst klukkan 14 og stendur yfir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×