Innlent

Sigurður G. fær ekki að verja Jón Ólafs

Kröfu Jóns Ólafssonar athafnamanns um að Sigurður G. Guðjónsson yrði skipaður verjandi hans var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stundu. Við þingfestingu ákærunnar í málinu fyrir skömmu fór saksóknari fram á að Sigurður yrði ekki skipaður verjandi, þar sem hann kynni að verða kallaður til sem vitni í málinu.

Fyrirtakan fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 14:00 í dag. Misskilningur kom upp á milli saksóknara og dómara annarsvegar og verjanda hinsvegar, þar sem verjandi hafði gert ráð fyrir því að geta gert grein fyrir máli sínu áður en úrskurður yrði kveðinn upp. Dómari las hinsvegar úrskurðinn upp um leið og þinghald hófst. Ragnar Aðalsteinsson verjandi Jóns Ólafssonar sagði eftir þinghaldið að dómara hefðu orðið á mikil réttarfarsleg mistök og segir að málið verði kært til Hæstaréttar.

Komist Hæstiréttur að því að Héraðsdómur hefði átt að verða við kröfu Jóns um skipun verjanda, mun héraðsdómari væntanlega þurfa að víkja í málinu.

Jón Ólafsson hugðist láta Sigurð G. Guðjónsson og Ragnar Aðalsteinsson verja sig í málinu. Jón er ákærður fyrir að hafa svikið alls um 360 milljónir króna undan skatti. Með honum eru ákærðir þrír menn sem störfuðu hjá Norðurljósum og undir­fyrirtækjum þeirra.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×