Innlent

Launahækkanir bankastjóra senda fráleit skilaboð

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Þingmenn Samfylkingarinnar gagnrýndu launahækkanir bankastjórnar Seðlabankans á Alþingi í dag. Þeir sögðu bankaráð vera með hækkununum að senda út fráleit skilaboð á tímum þegar óstöðugleiki á vinnumarkaði væri mikill.

Nýleg ákvörðun bankaráðs Seðlabanka Íslands um að hækka laun bankastjóra bankans um tvö hundruð þúsund krónur var rædd í sölum Alþingis í dag. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, benti á að í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í gær hafi verið varað við ofþenslu, lausatökum í hagstjórninni og hvatt sérstaklega til þess að hemill yrði hafður á launahækkunum í kjarasamningum á þessu ári. Hann vildi fá skýringar frá Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Samfylkingunni á hækkununum.

Hvorki þingmenn Sjálfstæðisflokksins né Framsóknarflokksins tjáðu sig um málið en þingmenn Samfylkingarinnar gagnrýndu hækkanirnar harðlega. Helgi Hjörvar sagði ákvörðunina hljóta að vekja efasemdir og að skilaboðin sem bankinn sendi út með henni væru olía á eld. Helgi sagði hækkanirnar óhóflegar og verið væri að senda út fráleit skilaboð með þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×