Handbolti

Sigtryggur á heimleið og leikur í fyrsta sinn í Olís-deildinni á næsta tímabili

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigtryggur lék fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands. Hann var m.a. í íslenska U-18 ára liðinu sem endaði í 3. sæti á HM í Rússlandi 2015.
Sigtryggur lék fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands. Hann var m.a. í íslenska U-18 ára liðinu sem endaði í 3. sæti á HM í Rússlandi 2015. mynd/ehf

Handboltamaðurinn Sigtryggur Daði Rúnarsson leikur á Íslandi á næsta tímabili. Það verður í fyrsta skipti sem hann leikur með íslensku liði í meistaraflokki en hann hefur síðustu ár alið manninn í Þýskalandi.

„Ég hef náð samkomulagi við lið og það verður væntanlega tilkynnt á næstunni,“ sagði Sigtryggur í samtali við Vísi í dag. Hann vildi ekki staðfesta hvaða lið um væri að ræða en samkvæmt heimildum íþróttadeildar er líklegast að hann fari til bikarmeistara ÍBV.

Á síðasta tímabili lék Sigtryggur með Lübeck-Schwartau í þýsku B-deildinni. Hann hefur einnig leikið með Balingen-Weilstetten og Aue í Þýskalandi.

„Þetta verður í fyrsta skipti síðan með Þór í 4. flokki sem ég spila á Íslandi. Ég kem sem nýliði, þó aðeins eldri en flestir nýliðar,“ sagði Sigtryggur sem verður 24 ára í sumar.

Hann hlakkar til að spila í Olís-deildinni á næsta tímabili. „Það er mjög spennandi að koma heim og spila í deildinni núna,“ sagði Sigtryggur sem er einn fjölmargra leikmanna sem eru á heimleið úr atvinnumennsku.

Yngri bróðir Sigtryggs, Andri Már, leikur með Stjörnunni. Faðir þeirra, Rúnar Sigtryggsson, þjálfaði Stjörnuna 2018-20. Sigtryggur lék undir stjórn hans hjá Aue og Balingen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×