Innlent

Segja kaup á Laugavegshúsum hafa hækkað verð á Lækjargötu 2

Lækjartgata 2 skemmdist mjög mikið í brunanum í fyrra.
Lækjartgata 2 skemmdist mjög mikið í brunanum í fyrra.

Minnihlutinn í borgarráði segir ljóst að framganga meirihlutans við kaup á Laugavegi 4-6 hafi haft áhrif til hækkunar á verðinu sem greitt er fyrir Lækjargötu 2 sem brann í fyrra.

Borgarráð samþykkti með fjórum atkvæðum meirihlutans í dag samning milli Reykjavíkur og Fasteignafélagsins Eikar um kaup á Lækjargötu 2 fyrir 321 milljón króna. Húsið er annað þeirra sem skemmdist mikið í bruna í fyrravor, en hitt húsið, Austurstræti 22, var keypt á 263 milljónir í tíð fyrri meirihluta. Samanlagður kostnaður við kaupin er því hátt í 600 milljónir.

Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri - grænna og Framsóknarflokksins í borgarráði í dag segir að það verð sem nú sé lagt til að greitt verði fyrir byggingarétt á Lækjargötu 2 sé hærra en verðið á Austurstræti 22 sem keypt var fyrir örfáum mánuðum.

Greitt mjög hátt verð fyrir Laugaveg 4-6

,,Miðað við það verð sem greitt er fyrir byggingarétt nú á Lækjargötu 2 og við Austurstræti 22 er ljóst að fyrir Laugaveg 4-6, var greitt mjög hátt verð. Kaupin þá voru ein forsenda myndunar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Magnússonar. Eindregnar yfirlýsingar um að húsin skyldi kaupa áður en samkomulag náðist við seljendur höfðu án efa áhrif á verðið. Leiða má að því líkur að þessi framganga hafi verulega skert samningsstöðu borgarinnar sem kristallast í því háa verði sem þá var greitt. Nú virðist jafnframt orðið ljóst að framgangan í Laugavegsmálinu hafi haft víðtækari áhrif til hækkunar ef marka má það verð sem nú er greitt fyrir Lækjargötu 2," segir minnihlutinn.

Kaupin nauðsynleg fyrir uppbygginu í Kvos

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu hins vegar bóka fögnuð yfir því að samningar hefðu náðst um kaup á Lækjargötu 2. Þau væru í raun nauðsynleg til að tryggja að hægt yrði að vinna að uppbyggingu á þessum mikilvæga reit með öflugum og skjótum hætti. ,,Lækjargata 2 er algjört lykilhús á þessu svæði og með kaupunum er tryggt að hægt er að hefja endurbætur við húsið fljótt og örugglega," segir meirihlutinn.

Þá bendir hann á að deiliskipulag fyrir stórt svæði í Kvosinni sé í auglýsingu í kjölfar hugmyndasamkeppni þar um og kaupin á Lækjargötu 2 séu ein af lykilforsendum þess að þetta metnaðarfulla skipulag fái farsæla afgreiðslu og niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×