Skoðun

Hvers vegna er ekki meiri verð­bólga?

Björn Berg Gunnarsson skrifar

Mikið ber á umræðu um verðbólgu þessa dagana en minna bólar á henni sjálfri. Þrátt fyrir að krónan okkar hafi fallið um einhver 14% frá áramótum og evran sé litin upp fyrir 160 kallinn virðist vísitala neysluverðs bara renna áfram í hlutlausum. En hvernig getur staðið á þessu? Hlýtur verðlag ekki að hækka þegar krónan veikist?

Margir virðast taka því sem gefnu að verðbólgan muni nú rjúka upp úr öllu valdi. Okkur er minnistætt þegar krónan féll með látum í kjölfar fjármálahrunsins og verðbólgan át inn í eignir landsmanna í kjölfarið. En aðstæður eru ekki þær sömu nú og þær voru þá. 12 mánaða verðbólga mældist í apríl 2,2% og er enn undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans þó líkur séu á að hún muni gægjast upp fyrir það fyrir lok ársins. Vissulega hefur innflutningsverð hækkað vegna veikingar krónunnar en nokkuð sterkir kraftar draga verðlag niður á móti. Olíuverð hefur lækkað heilmikið sem og verð annarra hrávara erlendis auk þess sem minni eftirspurn hér á landi, vegna núverandi þrenginga, hvetur fyrirtæki til að hækka síður verð. Það er erfitt að spá fyrir um framhaldið en veigamiklir þættir á borð við íbúðaverð gefa frekar tilefni til að búast við hóflegri verðbólgu en mikilli hækkun neysluverðs.

Úr Seðlabankanum berast skýr skilaboð um að verðbólgu verði ekki leyft að fara úr böndunum og beitir bankinn meðal annars digrum gjaldeyrisforða sínum til að styðja við krónuna og hemja verðlag. Krónan hefur vissulega veikst, en ekki meira en aðrir minni gjaldmiðlar hafa gefið eftir gagnvart þeim stóru. Tekjur ferðaþjónustu hafa vitaskuld hrapað en á móti er að draga verulega úr innflutningi og ekki eru Íslendingar að nota kortin sín mikið erlendis þessa dagana. Til þess að verðbólga aukist hér til muna þarf því ýmislegt að breytast.

Bölsýnisspárnar um verðbólguna hafa ekki ræst og það lítur ekki út fyrir að svo verði í bráð en það borgar sig þó alltaf að hafa auga með íslensku verðbólgunni, henni er ekki alveg treystandi þó hún hafi hagað sér skikkanlega undanfarin ár.

Höfundur er deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×