Skoðun

Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað

Þórarinn Eyfjörð skrifar
Á vegum Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Ríkisendurskoðunar og Stofnunar stjórnsýslufræða var haldinn morgunverðarfundur þann 10. nóvember síðastliðinn. Yfirskrift fundarins var „Starfsmannamál ríkisins – er breytinga þörf?“. Fyrsta erindi fundarins kom frá Ingunni Ólafsdóttur sérfræðingi á stjórnsýslusviði Ríkisendurskoðunar og fjallaði hún um könnun á viðhorfi forstöðumanna til starfsmannalaga. Í könnun Ríkis­endurskoðunar koma fram mjög alvarlegar vísbendingar um takmarkaða þekkingu og getu forstöðumanna ríkisstofnana í mannauðsmálum. Styrkur þeirra virðist sannarlega ekki liggja í mannauðsstjórnun heldur á fagsviði viðkomandi forstöðumanns. Hvernig er þá ástandið í starfsmannamálum? Helmingur forstöðumanna metur ekki frammistöðu starfsmanna með formlegum hætti, flestir þeirra telja sig þó umkomna til að sinna starfsmannamálum með fullnægjandi hætti og rúmlega þriðjungur þeirra telur sig geta bætt þjónustu sinnar stofnunar með því að reka eldri starfsmenn og ráða nýja! Hér er verulegra umbóta þörf.

Ríkisendurskoðun hefur í gegn um tíðina oft komið fram með ábendingar og leiðsögn sem virðast bæði vera þarfar og gagn­legar. Það var því nokkuð sérstakt að hlýða á málflutning fulltrúa stofnunarinnar á umræddum fundi því ekki var lagt út af augljósustu og alvar­legustu niðurstöðu könnunar­innar; að helmingur stjórnenda innan ríkis­kerfisins hefur ekki sérþekkingu á sviði mannauðs­stjórnunar. Af þessu má að minnsta kosti draga eina ályktun. Það er innbyggt í starfsmannahald ríkisins að upp muni koma vandamál hvað varðar stjórnun starfsmanna og árangur þeirra deilda og sviða þar sem stjórnendur hafa enga eða litla þekkingu á mannauðsstjórnun. Í ljósi þessarar stöðu þá liggur það beint við að sá stjórnandi sem illa veldur hlutverki sínu í stjórnun starfsmanna, er líklegur til að kenna öðrum um slaka frammistöðu sinnar einingar. „Bara ef ég gæti nú rekið þig, já og líka þig, þá myndi allt verða í himnalagi“. Því miður þá getur viðhorf af þessu tagi orðið að meinsemd. Við höfum dæmin allt í kring um okkur; agaleysi barna er skólanum að kenna, vont hjónaband er makanum að kenna og slæleg frammistaða í rekstrinum er starfsmönnum að kenna. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.

Á umræddri ráðstefnu átti Gunnar Björnsson skrifstofustjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins lokaerindið. Ef hægt er að tala um kjarna málsins, eða vandans, þá kom hann fram í máli Gunnars. Hann lagði út af því hvert væri hlutverk og ábyrgð stjórnenda innan ríkis­kerfisins. Erindi hans bar yfirskriftina „Betri mannauðsstjórnun – öflugri stjórnsýsla“. Í máli Gunnars kom meðal annars fram;

60%-75% af lélegri frammistöðu í rekstri má skrifa á stjórnun.

Góðir stjórnendur skila meiri framleiðni og starfsánægju en slakir stjórnendur.

Helsti einstaki áhrifavaldur fyrir tryggð og frammistöðu starfsfólks er leiðtogahæfni stjórnenda.

Helsta ástæða uppsagna starfsfólks er óásættanleg samskipti við næsta stjórnanda.

Þar höfum við það. Fjölmiðlar hafa gert sér mat úr þessum morgun­fundi. Það hefur vakið athygli að þeir hafa látið hjá líða að fjalla sérstaklega um þennan kjarna málsins.

Það er að sínu leyti leitt hvað heimskulegar fullyrðingar um ófullnægjandi frammistöðu ríkis­starfsmanna vekja krampakennd viðbrögð hjá ákveðnum hópi manna. Það er einnig leitt að Ríkis­endurskoðun skuli ekki í annars góðum verkum sínum, benda á meinsemdina í stjórnun ríkisstofnana og leggja til skynsam­legar úrbætur. Staðreyndin er sú að almennir ríkisstarfsmenn sinna verkum sínum og ábyrgðar­sviðum af stakri prýði og fyrir lægri laun að jafnaði en aðrir njóta. Vitaskuld koma upp vandamál varðandi starfsmannahald í öllum skipulagseiningum. Gunnar Björnsson hefur bent á hið augljósa; að efla beri þekkingu og getu stjórnenda stofnana ríkisins til að stýra starfsfólki sínu með faglegum hætti. Þetta eru góðar og gagnlegar ábendingar. Um þetta eru fræðin afdráttarlaus; góð stjórnun skilar góðum árangri – slök stjórnun skilar slökum árangri. Til þess að auka árangur í rekstri ríkisstofnana er því lykilatriði að tryggja að stjórnendur hafi forsendur til að axla þá ábyrgð sem í stjórnun starfsmanna felst. Meðal annars þar er að finna lykilinn að góðum árangri.




Skoðun

Sjá meira


×