Skoðun

Markvissra breytinga á stjórnarskránni er þörf

Kári Allansson skrifar

„Ísland er frjálst og fullvalda lýðveldi.

Lýðræði, þingræði og jafnrétti eru grundvallarreglur stjórnskipunar Íslands.

Handhafar ríkisvaldsins fara með vald sitt í umboði þjóðarinnar."

Svona tel ég að fyrsta grein stjórnarskrárinnar ætti að vera. Þessa tillögu er að finna í frumvarpi til stjórnskipunarlaga sem Gunnar Thoroddsen flutti á sínum tíma. Í því frumvarpi eru margar góðar tillögur sem eiga ennþá fullt erindi í dag. Meðal helstu nýmæla í frumvarpinu er að lýðræðis, þingræðis og jafnréttis er getið með beinum hætti sem grundvallarreglna stjórnskipunarinnar og skýrt er tekið fram að landið sé frjálst og fullvalda.

Í greinargerð með frumvarpinu segir um lýðræðishugtakið að í því felist meðal annars að allir kosningabærir þjóðfélagsþegnar kjósi æðstu handhafa framkvæmdar- og löggjafarvaldsins, að handhafar framkvæmdarvaldsins séu bundnir að lögum og að öllum landsmönnum séu tryggð grundvallarmannréttindi. Einnig segir að dómstólar séu sjálfstæðir, dæmi einungis eftir lögum en séu ekki bundnir við nein fyrirmæli framkvæmdarvaldshafa. Þingræðisreglan er orðuð með beinum hætti en ekki með órækum hætti eins og áður.

Þingræðisreglan er svo skilgreind nánar í 13. grein frumvarpsins:

„Forseti ákveður hverjum hann felur að mynda ríkisstjórn. Hann skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Jafnframt ákveður hann tölu þeirra og skiptir störfum með þeim að tillögu forsætisráðherra.

Ríkisstjórn skal njóta stuðnings meiri hluta Alþingis eða hlutleysis. Hún skal því aðeins mynduð, að forseti hafi gengið úr skugga um, að meiri hluti Alþingis sé henni ekki andvígur.

Hafi viðræður um stjórnarmyndun samkvæmt 2. málsgrein ekki leitt til myndunar ríkisstjórnar innan 8 vikna, er forseta heimilt að skipa ríkisstjórn. Ríkisstjórn eða ráðherra skal láta af störfum, ef meiri hluti Alþingis lýsir yfir vantrausti."

Ég tel að við eigum að halda í þingræðisregluna en bæta því við að þingmenn komi ekki til greina við val á ráðherrum. Við það yrði forsetinn að leita til þess manns eða konu sem hann treystir best til að vera forsætisráðherra, sem síðan gerði tillögu að öðrum ráðherrum. Forsetinn og ríkisstjórnin mynda síðan ríkisráð þar sem lög og stjórnarráðstafanir sem krefjast undirritunar forseta eru bornar upp sem og önnur málefni ákveðin með lögum frá Alþingi.

Að auki tel ég að ríkisstjórnin þurfi að vera fjölskipað stjórnvald og standi sameiginlega að málum sem hún ber síðan undir þingið til samþykktar. Í þessu kerfi leikur forsetinn stórt hlutverk en skýrt afmarkað við tvennt; ríkisstjórnarmyndun og staðfestingu laga, en að öðru leyti framkvæma ráðherrar vald forseta . Forsetinn er þjóðkjörinn og er fulltrúi þjóðarinnar við eftirlit með eðlilegum samskiptum milli löggjafans og framkvæmdarvaldsins. Ef misbrestur verður á framkvæmd laga getur Alþingi rekið ríkisstjórnina en þjóðin getur rekið forsetann ef ástæða þykir til, það er gert með þjóðaratkvæðagreiðslu sem ¾ hlutar alþingismanna stofna til.

Mikið hefur skort á skýr samskipti milli ráðamanna þjóðarinnar sem og skilvirkt verklag við ákvarðanatöku og stefnumótun. Valdi fylgir ábyrgð og því þarf að skilgreina nákvæmlega mörk valdsins til þess að ábyrgðin sé skýr. Með þessari leið ættu ráðherrar að vera valdir á faglegum forsendum og þingmenn einbeittu sér að löggjöf og eftirliti með framkvæmd hennar. Í raun væri íslenskum stjórnmálum gjörbylt þar sem hún hefur hingað til að mestu leyti snúist um ráðherradrauma þingmanna. Ef þingmenn væru svo valdir á einstaklingsgrundvelli en ekki á forsendum stjórnmálaflokkanna, þá væri búið að þrengja verulega að því ofurvaldi sem flokkarnir hafa sjálfir tekið sér hér á landi.

Kári Allansson tónlistarmaður og frambjóðandi nr.9145.






Skoðun

Sjá meira


×