Íslendingar hafa unnið Norðurlandaþjóð í fyrsta leik á fjórum Evrópumótum í handbolta karla í röð.
Það væri þó óskandi að EM 2020 myndi enda betur en EM 2016 og 2018 gerðu.
Í gær vann Ísland heims- og Ólympíumeistara Danmerkur, 30-31, í fyrsta leik sínum í E-riðli.
Ísland hefur því lagt Norðurlandaþjóð að velli í fyrsta leik sínum á fjórum Evrópumótum í röð. Ísland hefur alls fjórum sinnum mætt Norðurlandaþjóð í fyrsta leik sínum á EM; unnið fjóra leiki og tapað tveimur.
Á EM 2014 vann Ísland Noreg, 31-26, í fyrsta leik sínum í B-riðli. Íslenska liðið endaði í 5. sæti á EM 2014 sem er þriðji besti árangur þess á EM frá upphafi.
Tveimur árum síðar í Póllandi vann Ísland Noreg aftur í fyrsta leik, 26-25. Líkt og í leiknum gegn Danmörku í gær tryggði Björgvin Páll Gústavsson Íslandi sigurinn með því að verja lokaskotið.
Þetta reyndist hins vegar eini sigur Íslands á EM 2016. Íslenska liðið tapaði síðustu tveimur leikjum sínum í B-riðli, fyrir Hvíta-Rússlandi og Króatíu, og endaði í neðsta sæti hans. Norðmenn fóru hins vegar í undanúrslit.
Evrópumótið 2018 í Króatíu þróaðist nákvæmlega eins og mótið í Póllandi tveimur árum fyrr.
Í fyrsta leik sínum í A-riðli sigraði Ísland Svíþjóð, 24-26, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 8-15.
Ísland tapaði svo tveimur síðustu leikjum sínum í riðlinum, fyrir Króatíu og Serbíu, og féll úr leik. Svíar, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, unnu hins vegar tvo síðustu leiki sína í riðlinum og komu á endanum heim með silfurmedalíu um hálsinn.
Óskandi væri að þróunin yrði ekki sú sama og á EM 2016 og 2018 og íslenska liðið myndi fylgja góðri byrjun eftir og komast í milliriðla.
Næsti leikur Íslands er gegn Rússlandi á morgun. Á miðvikudaginn mæta Íslendingar svo Ungverjum.
EM 2000 í Króatíu:
Ísland 23-31 Svíþjóð
EM 2002 í Svíþjóð:
Ísland 24-24 Spánn
EM 2004 í Slóveníu:
Ísland 28-34 Slóvenía
EM 2006 í Sviss:
Ísland 36-31 Serbía-Svartfjallaland
EM 2008 í Noregi:
Ísland 19-24 Svíþjóð
EM 2010 í Austurríki:
Ísland 29-29 Serbía
EM 2012 í Serbíu:
Ísland 29-31 Króatía
EM 2014 í Danmörku:
Ísland 31-26 Noregur
EM 2016 í Póllandi:
Ísland 26-25 Noregur
EM 2018 í Króatíu:
Ísland 26-24 Svíþjóð
EM 2020 í Noregi, Svíþjóð og Austurríki:
Ísland 31-30 Danmörk