Handbolti

Guðmundur: Einn besti leikur sem ég hef upplifað með íslenska landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur brosti breitt eftir leikinn.
Guðmundur brosti breitt eftir leikinn. vísir/getty

„Ég er gríðarlega ánægður með sigurinn. Að byrja EM á þennan hátt, að vinna besta lið heims. Það er stórt og mikið afrek,“ sagði Guðmundur Guðmundsson í samtali við Vísi eftir sigurinn á Danmörku, 30-31, í dag.

Þrátt fyrir mikla gleði eftir sigur dagsins segir Guðmundur að ekkert sé enn í hendi.

„Okkar bíður mjög verðugt verkefni gegn Rússum í næsta leik. Það verður ekkert einfaldur leikur og við verðum að vera fljótir að koma okkur niður á jörðina og vera klárir,“ sagði Guðmundur.

Hann hrósaði íslensku leikmönnunum fyrir frammistöðuna í dag.

„Ég er ánægður með hvernig við lögðum upp leikinn. Leikaðferðirnar gengu fullkomlega upp í vörn og sókn. Þetta var virkilega ánægjulegt,“ sagði Guðmundur sem er auðvitað fyrrverandi þjálfari danska landsliðsins.

„Fyrir mig persónulega líka, að hafa verið þjálfari Dana og allt það. Þetta var mjög gaman fyrir mig. Þetta var frábær sigur og mjög vel gert hjá drengjunum.“

Guðmundur segist hafa einfaldað leikplanið fyrir leik dagsins.

„Við spiluðum stórkostlega vörn. Ég þekki leikmenn Dana, styrk- og veikleika þeirra. Við spiluðum á veikleika þeirra í vörninni allan leikinn og vorum mjög agaðir. Ég fækkaði leikaðferðunum og við einbeittum okkur að því að spila þær sem við spiluðum vel,“ sagði Guðmundur.

Aron Pálmarsson átti magnaðan leik í dag og dró íslenska vagninn.

„Það er ekki slæmt að eiga svona mann. Hann spilaði algjörlega stórkostlegan leik. Ég verð líka að hrósa öllu liðinu. En þetta var erfitt og það mátti engu muna,“ sagði Guðmundur sem tók á sprett inn á völlinn eftir að leiktíminn rann út.

„Ég var að athuga hvort ég hefði tognað aftan í læri. Það eru enn kippir í manni,“ sagði Guðmundur léttur að lokum.

Klippa: Viðtal við Guðmund

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×